Jun
16

Myndir úr AusturstrætiByggingu Austurstrætis 22, Landsyfirréttarhússins, er nú að mestu lokið og húsið hefur verið afhent leigutakanum, Veitingahúsinu Happi. Enn á eftir að ganga frá nokkrum atriðum, setja upp steypujárnsofna við eldstæðið, flaggstangir á gafla og nokkur minni háttar atriði. Að verkinu hefur komið einvala lið iðnaðarmanna í öllum greinum undir stjórn  aðalverktakans Gunnars Bjarnasonar sem lagt hefur metnað sinn í allan frágang hússins. Frekari umfjöllun um húsið og nágranna þess, Lækjargötu 2 og 2b verður að finna á heimasíðunni  innan skamms.

 
Apr
13

innimyndir úr vaktarabænum


 

Framkvæmdum við Vaktarabæinn, Garðastræti 23 lauk nú byrjun árs 2011. Minjavernd hf. annaðist allt verkið frá upphafi og húsið er nú tilbúið utan sem innan og vonandi bíður þess skemmtilegt hlutverk í samræmi við gerð þess og stærð og staðsetningu, sem arftaki Grjótabæjarins, sem stóð á þessum stað og Grjótaþorpið heitir eftir. Myndirnar tók Guðmundur Ingólfsson í apríl 2011 og er hægt að skoða myndirnar nánar undir FRIÐUÐ HÚS > VAKTARABÆRINN

 
Mar
21

Hringurinn, Kópavogi


 

Undanfarið hafa birst í fjölmiðlum fréttir af áhuga á verndun og endurbyggingu gamla spítalans í Kópavogi. Það er því gaman að geta bætt hérna inn "gamalli" frétt af tillögu um endurnýjun spítalans sem við gerðum fyrir fimm árum síðan fyrir listaverkasafnara sem vildi kaupa húsið og gera það að safni og sýningaraðstöðu.

Kvenfélagið Hringurinn var stofnað af hópi reykvískra kvenna 1904. Fyrstu áratugina beindist starf félagsins öðru fremur að berklavörnum og síðan endurhæfingu þeirra sem læknast höfðu af berklum. Árið 1924 fengu Hringskonur vilyrði Alþingis fyrir jörðinni Kópavogi sem þá var í Seltjarnarneshreppi og fengu Guðjón Samúelsson þáverandi húsameistara ríkisins til að teikna húsið, íslenska steinsteypuklassík, en Kristinn Sigurðsson múrarameistari tók að sér að reisa það. Teikningar Guðjóns Samúelssonar eru dagsettar í maí 1925 en húsið var formlega vígt 14. nóvember 1926.  Hönnun spítalans var að hluta byggð á erlendum fyrirmyndum og að hluta á reynslu og þekkingu íslenskra lækna og hjúkrunarkvenna. Þegar síðan byggt var upp á Reykjalundi minnkaði þörfin fyrir hælið í Kópavogi og á nýarsdag 1940 afhentu Hringskonur ríkinu bygginguna og jörðina. Á stríðsárunum tók hælið við sjúklingum frá Laugarnesspítala sem breska hernámsliðið hafði þá yfirtekið og að stríðinu loknu hófst þar rekstur heimilis og umönnunar fyrir vangefna  og síðar kennslu við umönnun þeirra í húsinu og var svo til ársins 1984 en frá þeim tíma hefur húsið verið í vanhirðu. Árið 2006 fengum við það verkefni sem að framan greindi að teikna listaverkasafn og aðstöðu fyrir sýningar og vinnudvöl listamanna í húsinu. Lögð var áhersla á hlutverk aðalbyggingarinnar og endurbyggingu hennar og tengslin við umhverfið og þá ekki síst "Hringinn" sem mótaður er í túninu og skóginum sunnan og neðan við húsið.
Þar sem ekki reyndist vilji hjá Kópavogsbæ á þessum tíma að gera nauðsynlegar breytingar á skipulagi fyrirhugaðrar háhýsabyggðar svo að segja við húsgaflinn, til að safnið og mannvirkin fengju notið sín, var fallið frá frekari áformum. Kannski hefur afstaða bæjaryfirvalda breyst?
 

 


 
Dec
22

Fréttir úr Austurstræti

 

Austurstræti 22, sem fyrirhugað er að endurgera og reisa á brunahorninu svokallaða er í raun hlaðið úr tilhöggnum timburstokkum u.þ.b. 10 cm á þykkt og 20 cm á hæð. Stokkarnir voru höggnir til úr sænskum furustokkum og settir saman vestur á Granda, en hafa nú verið teknir niður og reistir á sínum stað í Austurstrætinu þar sem stokkahúsið var upphaflega hlaðið 1801. Næst verður klætt skarsúð á sperrurnar og síðan hafist handa við ytri frágang veggja og þaks. Veggirnir verða klæddir listaklæðningu en þakið klætt rennisúð á ysta borði.

Önnur hús á horninu eru lengra komin, Lækjargata 2 næstum fullbúið ofan jarðhæðar að utan með íslenskri blágrýtisskífu á þakinu og Nýjabíó uppsteypt og verið að ganga frá þakinu.

 
Dec
01

Grænahlíð á forsíðu National Geographic

 

 

Forsíða National Geographic frá því í sumar þar sem sýnd er mynd af Brattahlíð í Grænlandi, tilgátuhúsi, sem ARGOS teiknaði fyrir nokkrum árum. Hægt er að fræðast nánar um verkefnið undir:

RANNSÓKNARVERKEFNI >BRATTAHLÍÐ.