Apr
24

Franski spítalinn hlaut viðurkenningu Europa Nostra 2016


Myndir: Guðmundur Ingólfsson / Ímynd ©

Minjavernd hlaut fyrir skömmu viðurkenningu fyrir endurbyggingu og breytingar og heildaruupbyggingu við Franska spítalann á Fáskrúðsfirði, EUROPEAN UNION PRIZE FOR CULTURAL HERITAGE / EUROPA NOSTRA AWARDS 2016, Evrópsku menningarverðlaunin fyrir verkefni á sviði menningararfleifðar / Europa Nostra verðlaunin 2016.

Minjavernd hóf að leiða huga að húsum þessum og sögu árið 2007. Þá var séð fyrir enda á umfangsmiklu starfi félagsins að endurgerð húsa við Aðalstræti og Vesturgötu í Reykjavík og áhugi í stjórn félagsins á verkefni úti á landi. Verkefnið óx í huga og veruleika stig af stigi. Franski spítalinn var mældur upp úti á Hafnarnesi 2008 og sama ár var Fjarðabyggð kynntur áhugi félagsins á verkefninu. Upphaflega voru hugleiðingar uppi um að endurbyggja húsið úti á Hafnarnesi, en fljótlega var horfið frá því og stefnan tekin inn á Fáskrúðsfjörð. Fyrst var skoðaður möguleikinn á að setja hann á sinn upphaflega stað, en einnig var horfið frá því í ljósi breyttra kringumstæðna á þeim stað. Lóð neðan Hafnargötu, neðan Læknishúss var hins vegar auð. Því var tekin sú ákvörðun að endurreisa húsið þar og í framhaldi færðist hugsun yfir til Læknishússins og tengingar húsanna undir Hafnargötu. Þar til viðbótar var síðan tekin ákvörðun um að endurgera Sjúkraskýlið vestan Læknishússins, kaupa Kapelluna og flytja hana að vesturhlið Sjúkraskýlisins þannig að húsin tvö hefðu sömu afstöðu innbyrðis og í umhverfi og þau höfðu upphaflega. Þar til viðbótar var ákveðið að endurgera Líkhúsið einnig. Þessum fyrri hluta verkefnisins var lokið í júníbyrjun 2014 og húsin þá tekin í notkun.

(Skáletraði textinn hér að framan er úr fréttatilkynnngu Minjaverndar 7. apríl sl. Ljósmyndirnar eru eftir Guðmund Ingólfsson og voru hluti umsóknarinnar. Benda má á hrimasíðu Minjaverndar www.minjavernd.is)

Nánar má lesa um viðurkenninguna, verðlaunin og önnur verkefni sem valin hafa verið á vef Europa Nostra : http://www.europanostra.org/news/748/ 

Viðurkenningar verða veittar í Madrid 24. maí nk. en þar verða jafnframt veitt sérstök peningaverðlaun sjö verkefnum sem sérstök dómnefnd ákveður. Forseti samtakanna Europa Nostra er Placido Domingo. Almenningi gefst kostur á að greiða einhverjum verkefnanna atkvæði sitt á sérstökum vef til og með 8. maí nk., sjá: http://vote.europanostra.org/. Velja má 3 verkefni, en verkefnið sem fær flestar tilnefningar hlýtur sérstök almennings verðlaun, Public Choice Award.

Segja má að viðurkenning þessi marki líka sérstök tímamót í 40 ára samstarfi okkar arkitektanna, ARGOS ehf, Arkitektastofu Grétars og Stefáns og Minjaverndar, ef telja má að það hafi hafist með uppbyggingu Móhúsanna við Skólastræti eða bakhúsanna á Bernhöftstorfunni eftir brunann 1977. Reyndar var það í nafni Torfusamtakanna og arkitektastofan hét öðru nafni en þetta hafa verið sömu kallarnir allan tímann, samstarf okkar Grétars við Þorstein Bergsson hefur verið farsælt, kannski ekki alltaf friðsælt(!) en fjölbreytt og lærdómsríkt og kannski umfram allt árangursríkt. Þessi viðurkenning nú er því eins konar afmælisveisla þessa samstarfs auk þess að vera alþjóðleg viðurkenning á þessu starfi sem er okkur öllum auðvitað mikils virði. Við erum því þakklátir fyrir viðurkenningu Evrópusamtakanna en einnig þakklátir fyrir samstarfið við Þorstein og Minjavernd gegnum öll þessi ár og öll þessi verk. Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá Fáskrúðsfirði, sögu Fransmanna við fiskveiðarnar, flutning hússins og hugmyndina um endurbyggingu heildarinnar og varðveislu byggingar- og menningarsögulegra verðmæta og hlutdeild í uppbyggingu ferðaþjónustu á Austurlandi. 

Einar Hlér Einarsson arkitekt var starfsmaður okkar mest allan þennan tíma og á sinn stóra þátt í þessu verkefni. Hann byrjaði reyndar sinn fyrsta dag í vinnunni á að fara austur á Fáskrúðsfjörð ásamt Grétari og Þorsteini Bergssyni og Bergi Þorsteinssyni sem einnig er arkitekt og starfar nú í Noregi, en þá var Spítalinn mældur upp og teiknaður á Hafnarnesi.

Aug
07

Domus Restoration and Preservation

 

Mynd: Sigurgeir Sigurjónsson ©

Arkitektastofurnar ARGOS, Gullinsnið og Studio Granda voru tilnefndar til alþjóðlegra verðlauna fyrir byggingarsögulega varðveislu og endurgerð árið 2014, "Domus Restoration and Preservation", International Prize for Architectural Restoration, IV Edizione 2014. Tilnefningin var vegna endurbyggingar Lækjargötu / Austurstrætishornsins í Reykjavík, brunahornsins svokallaða sem tekið var í notkun 2011 eftir brunann 2008. Verðlaunaafhendingin fór fram í Ferrara á Ítalíu í mars sl., þar sem jafnframt var sett upp sýning á tilnefndum og verðlaunuðum verkum. Arkitektastofurnar hafa áður hlotið evrópska viðurkenningu, Philippe Rotthier-verðlaunin 2011, viðurkenningu, Philippe Rotthier-verðlaunin 2011, viðurkenningu vegna endurbyggingar og varðveislu menningarminja og hornið í miðbæ Reykjavíkur var einnig á lista yfir 10 helstu verk í arkitektúr og landslagsarkitektúr ársins 2011 á bloggsíðunni polis.

Beinn hlekkur á færsluna er hér: http://www.thepolisblog.org/2012/01/polis-picks-best-architecture-and.html

Aug
05

Augu Argosar

 

 


Mynd: GPÓ

Það eru bráðum tíu ár síðan við fluttum hér út á Eyjarslóð 9. Teiknistofan hafði fram að því og frá stofnun 1991 verið kennd við heimilisfang sitt á Skólavörðuholtinu. Það þótti ekki ganga lengur eftir að komið var hér út í hafsauga og ARGOS ehf. varð fyrir valinu sem nafn og stytting fyrir ARkitektastofu Grétars Og Stefáns. Og þó maður gerði sér grein fyrir að borgríki í Grikklandi til forna hafi heitið sama nafni og einhver önnur fyrirtæki úti í heimi bæru svipað eða sama nafn, þá varð þetta ofan á.


Nokkru seinna kom bréf frá Guðmundi Páli Ólafssyni en við vorum kunningjar og höfðum átt nokkra samleið áður. Hann var þá nýkominn heim frá ferðinni um Amasón.

 

Bréf Guðmundar Páls fer hér á eftir:

 

Blessaður, Stefán

Argos var alsjáandi og þótt dauður sé fylgist hann áfram með. Hér er ágæt lýsing á Argosi : http://www.visindavefur.is/svar.php?id=4500

Augu Argosar eru á stéli páfuglsins og þegar ég hef endurheimt allar mínar myndir skal ég láta þig hafa gæðamynd af augum Argosar tekna á Amasonsvæðinu.

Flott nafn á arkitektastofu þótt uppruninn hafi annar verið en einhver dulhyggju-sveimhuginn gæti þó komist að þeirri niðurstöðu að sjálfur Argos sé með í för og fylgist með ykkur.

Sendi Sólbakkamælingar fljótlega.

Mbkv, gpó

 

Myndin af augum Argosar er hér að ofan. Hún er í miklu dálæti hjá okkur.Mar
23

1. verðlaun í hugmyndasamkeppni um Geysissvæðið

 Fyrir skömmu var haldin hugmyndasamkeppni á vegum sveitarfélagsins Bláskógabyggðar í samstarfi við Landeigendafélag Geysis ehf. og Arkitektafélag Íslands um skipulag og hönnun Geysissvæðisins í Haukadal. Á svæðið komu árið 2012 um hálf milljón ferðamanna og hefur fjöldi þeirra aukist mjög hratt eins og víða annars staðar en mjög stór hluti erlendra ferðamanna kemur á Geysissvæðið auk innlendra gesta.

ARGOS var boðið að vera með Landmótun ehf. í tillögugerð sem var mjög ánægjulegt og niðurstaðan var í stuttu máli sú að tillaga okkar hlaut 1. verðlaun meðal 14 innsendra tillagna og voru tillögurnar kynntar og verðlaun afhent 6. mars sl. á Geysi. Samstaða var innan dómnefndar um val á 1. verðlaunatillögunni. Aðrir rágjafar við tillögugerðina voru Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum og hugbúnaðar- og margmiðlunarfyrirtækið Gagarín. Tillagan fer varfærnum höndum um hverasvæðið sjálft, leggur mikið upp úr að opna aðgengi að hinum minni hverunum en einnig að skapa viðunandi aðstæður til að virða fyrir sér hina stærri hveri, ekki síst Strokk og reglubundin gos hans svo og Geysi sjálfan. Í tillögunni felst sú framtíðarsýn að þjóðveginn megi færa suður fyrir byggðarkjarnann svo flæði milli hverasvæðis og þjónustusvæðis og aðkomu ferðamanna verði óhindrað en ekki sundurskorið af þjóðvegi eins og nú er með tilheyrandi óöryggi og vandræðagangi.

 

Hér á eftir er listi yfir þáttakendur i tillögugerðinni og nokkrar myndir úr tillögunni.

 

Landmótun ehf.:

Einar E. Sæmundsen, landslagsarkitekt FÍLA

Guðrún Ragna Yngvadóttir, arkitekt

Jóhann Sindri Pétursson, mastersnemi í landslagsarkitektúr

Lija K. Ólafsdóttir, landslagsarkitekt FÍLA

Yngvi Þór Loftsson, landslagsarkitekt FÍLA

 

ARGOS ehf.:

Grétar Markússon, arkitekt FAÍ

Stefán Örn Stefánsson, arkitekt FAÍ

 

Ráðgjafar:

Einar Á.E. Sæmundsen, fræðslu- og kynningarfulltrúi þjóðgrðsins á Þingvöllum

 

Gagarín ehf., margmiðlunarstofa.

 

 

 


 

Mar
12

Myndir úr Hannesarholti


 

 

 

 

 

Tilnefningar til Menningarverðlauna DV fyrir árið 2013 voru birtar fyrir skömmu. Veitt eru verðlaun í fjölmörgum flokkum og þ.á m. fyrir byggingarlist. Að þessu sinni eru tilnefnd 5 verkefni: Háskólinn á Akureyri, höfundar Gláma-Kím:- Sæmundargarðar (stúdentagarðar) í Reykjavík, arkitektar Hornsteinar; Göngu- og hjólabrýr yfir Geirsnef, arkitektar Teiknistofan Tröð; Fellastígur í Breiðholti, arkitektar Skyggni frábært og nemendur Fellaskóla og síðast en ekki síst, Hannesarholt, Grundarstíg 10, höfundar ARGOS arkitektar í samstarfi við Árna Þórólfsson arkitekt um innri frágang og Reyni Vilhjálmsson landslagsarkitekt / Landslag ehf.  um ör-lóðina sem eftir var að Skálholtsstíg.

Öllum frágangi er ekki endanlega lokið en starfsemin í Hannesarholti hefur verið mikil og vaxandi síðan hún hófst fyrir rúmlega ári síðan. Mikið tónlistarlíf, konsertar af ýmsu tagi, fundir, ráðstefnur og ekki síst veitingastaður í hádegi og síðdegis, nú síðast undir nafninu Borðstofan í höndum Sveins Kjartanssonar.

Húsið Grundarstígur 10 er upphaflega byggt 1916 eftir uppdráttum Benedikts Jónassonar verkfræðings sem var bæjarverkfræðingur í Reykjavík á þeim tíma. Hannes Hafstein lét reisa húsið fyrir sig og fjölskyldu sína, úr steinsteypu og "óbrennanlegu efni", en hann hafði orðið vitni að Reykjavíkurbrunanum mikla 1915. Nánar er fjallað um húsið á heimasíðu Hannesarholts, www.hannesarholt.is og húsinu verða gerð ítarlegri skil hér síðar ef guð lofar. Myndirnar sem birtast hér hefur Guðmundur Ingólfsson ljósmyndari tekið.