ÞJÓNUSTUHÚS VIÐ HJARÐARHOLTSKIRKJU


Kirkjur gegna margþættu hlutverki í samfélagi okkar, þær eru rammi um gleði eða sorg, hátíðir og helgihald, þær tengjast víða sögu þjóðarinnar eða héraðsins og þær eru oftar en ekki aðdráttarafl fyrir ferðamenn, enda víða opnar almenningi og geta verið listræn upplifun í sjálfum sér, jafnvel nokkurs konar listasöfn með útskurði, altarismyndum eða öðrum munum.

Á seinni árum hafa kröfur aukist um bætta aðstöðu gesta og gangandi við kirkjur og kirkjustaði víða um land. Víða er um gamlar kirkjubyggingar að ræða, jafnvel friðaðar byggingar, en kirkjur byggðar fyrir 1918 eru friðaðar skv. þjóðminjalögum. Þar getur verið erfitt að koma fyrir bættri hreinlætisaðstöðu, gera afdrep fyrir prest eða sóknarbörn eða taka á móti vaxandi fjölda ferðamanna sem leggur leið sína um sveitir landsins og koma oft við á kirkjustöðum.

Fyrir rúmum áratug lét Skipulagsnefnd kirkjugarða, sem nú heitir Kirkjugarðaráð, vinna tillögur að byggingum sem reisa mætti við kirkjur í sveitum landsins, svokölluð þjónustuhús. Tillögurnar gerðu ráð fyrir mismunandi stærðum bygginga og breytilegum þörfum hverju sinni, allt frá verkfærageymslum og almennum snyrtingum til safnaðarstofa eða aðstöðu fyrir sóknarbörn til að hittast, fá sér kaffisopa, undirbúa athafnir, æfa söng eða jafnvel spila á spil. Lögð var áhersla á hlutlaus en vönduð hús, sem gætu fallið vel að sem flestum aðstæðum.  

Tillögur þessar hafa verið kynntar víða og útfærðar á nokkrum stöðum, m.a. við kirkjuna í Haga í Holta- og Landsveit og nú síðast hér í Hjarðarholti, en minni hús hafa verið reist víðar.

Í Hjarðarholti er einstök kirkja, fyrsta verk fyrsta íslenska arkitektsins, Rögnvaldar Ólafssonar og staðsetning hennar er líka einstök í suðurhlíðum Laxárdalsins, þar sem hún sést víða að og drottnar yfir dalnum. Þessa stöðu kirkjunnar varð að virða og þjónustuhúsið heldur sig því til hlés, dregur sig inn í  brekkuna, en þegar inn er komið opnast aftur fyrir útsýni yfir dalinn og að kirkjunni og húsið myndar nýtt rými fyrir aðkomuna að kirkjunni og kirkjugarðinum.

Undirbúningur að byggingu þjónustuhússins hófst haustið 2003 með samþykktum sóknarnefndar og samkomulagi við bændurna í Hjarðarholti. Fljótlega var svo ákveðið að skipuleggja jafnframt aðkomu og bílastæði og umgjörð kirkjunnar alla.

Í húsinu er safnaðarstofa um 35 fermetrar að stærð, inngangur, tvær snyrtingar og er önnur m.a. ætluð hreyfihömluðum svo og geymsla fyrir vélar og verkfæri. Húsið er alls tæpir 70 fermetrar að stærð. Í forstofunni er komið fyrir legsteini sem fannst í kirkjugarðinum. Hann er höggvinn um eða fyrir miðja 19. öld úr rauðum Húsafellssteini. Steinninn var brotinn en hefur verið límdur saman og gerð er grein fyrir honum og áletrun hans.

ARGOS ehf. hannaði þjónustuhúsið og Gunnar St. Ólafsson verkfræðingur hannaði burðarþol og lagnir og hafði umsjón með útboði og áætlunum. Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar annaðist raflagnahönnun en  Hilmar Óskarsson rafverktaki raflagnir. Guðmundur Rafn Sigurðsson framkvæmdastjóri Kirkjugarðaráðs hefur stutt þessar framkvæmdir með ráðum og dáð frá upphafi.

Framkvæmdir hófust haustið 2004 eftir að samið hafði verið við Megin ehf. í Búðardal um byggingu hússins að undangengnu útboði. Snemma árs 2006 var svo ákveðið að ljúka jafnframt öllum framkvæmdum við lóð og útisvæði. Landslag ehf., Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt, skipulagði og hannaði umhverfi kirkjunnar og þjónustuhússins. Samið var við Kol ehf. um þær framkvæmdir en Ari Jóhannesson hlóð veggi og garða.