HAFNARSTRÆTI 16


Á lóðinni Hafnarstræti 16 mun upphaflega hafa staðið svonefnt Kaðlarahús Innréttinganna í tengslum við kaðlarabrautina á sjávarkambinum norðan Hafnarstrætis. Við endurbyggingu hússins komu í ljós hleðslur í grunni hússins sem raktar voru til Kaðlarahússins.

Um 1790 var byggt verslunarhús á lóðinni að líkindum það sem kallað var Jóska húsið. Í því var verslað til 1824 en þá voru byggð þrjú hús á lóðinni, krambúðarhús, bökunarhús og verslunar- og pakkhús það sem enn stendur með breytingum. 

 Húsið var upphaflega einlyft timburhús með háu risi, múrað í binding, 28 álnir á lengd 12 álnir á breidd. Þakið var klætt rennisúð. Þorsteinn Kúld kaupmaður keypti húsin 1843. Hann klæddi verslunarhúsið málaðri listaklæðningu á þrjá vegu en fjórða hliðin var tjörguð. 1853 byggði hann  svokallaða messanín-hæð yfir mitt húsið þ.e. miðjukvist þvert yfir húsið, sem var hærri en þakið á gamla húsinu. Árið 1874 var helluþak á húsinu, miðjukvisturinn stóð þá í gegnum húsið og á þeim árum var dyraumbúnaðurinn gerður, klassískur dyraportal sem enn sést að miklu leyti.  

Nýr eigandi, M. Smith eignaðist húsið 1879 en hann átti þá fyrir Hafnarstræti 18.

Hann lét hækka húsið 1880 um eina hæð þannig að það varð tvílyft með miðjukvisti fram að götu eins og við þekkjum það í dag. Hann rak hótel og veitingahús í húsinu undir nafninu Hotel Alexandra og var húsið í eigu fjölskyldu hans til ársins 1908 en þá keypti Eyjólfur Eiríksson húsið og hefur það verið í hans eigu og afkomenda hans síðan. Um 1908 var gluggum á neðri hæð hússins breytt, gerðir stórir verslunargluggar og settur inngangur á na-horn hússins, sem varð skásneitt.

Miðað við önnur timburhús í bænum hefur húsinu lítið verið breytt í útliti frá 1880 að undanskildum fyrrnefndum verslunargluggum sem breytt var skömmu eftir aldamót. Á efri hæð hússins eru þiljur, frágangur veggja og lofta o.fl. að miklu leyti óbreytt, gluggar eru margir upphaflegrar gerðar, flatsúlur og bjór yfir inngangi lítið breyttur.

Húsið er því að mörgu leyti einstakt.

(Efni hér að framan að mestu sótt í bók Guðmundar Ingólfssonar, Guðnýjar Gerðar Gunnarsdóttur og Hjörleifs Stefánssonar, Kvosin, Rvík 1986, bls. 119-121)

Skv. þjóðminjalögum er um friðað hús að ræða, byggt fyrir 1850. Húsið var friðað 1989 og tekur friðun til ytra byrðis. Við endurbyggingu hússins var lagt til að farið væri að langmestu leyti aftur til þeirrar gerðar sem húsið fékk með hækkuninni 1880 sbr. mynd af Hotel Alexandra.

Á götuhæð var þó lagt til að endurgera innganginn á horninu með útskurðinum og verslunargluggunum tveimur austustu og freista þess þannig að sýna þessi tvö skeið í byggingarsögu hússins saman, bæjarbraginn fyrir aldamót og hinn vaknandi verslunarbæ með búðargluggunum frá því skömmu eftir aldamótin 1900.

Þessi skipting styðst jafnframt við þá notkun sem fyrirhuguð er, en í austurendanum, gamla verslunarhúsnæðinu er fyrirhugað að setja upp gallerí en í vestari hlutanum, bókasafn og skrifstofur. Inngangshlutinn með dyraumbúnaði sínum yrði endurgerður í 1880-gerð sinni. Á efri hæð hússins verða skrifstofur og íbúðarhluti þar í vestari enda hússins. Í risi eru fundarherbergi og minna notuð aðstaða, stigi þar upp verður endurbættur.

Skúrar og viðbyggingar á lóðinni voru rifnar, veggur að gamla barnaskólanum eða lögreglustöðinni var lækkaður og gengið frá að utan með upphaflegum klæðningum.

Stigahús var rifið og endurbyggt, húsið var klætt utan með láréttri borðaklæðningu að götunni, listaklæðningu til vesturs og til suðurs á neðri hæð en skífuklætt þar á efri hæð. Þakskífa var endurlögð og endurnýjuð eftir þörfum.

Sökkulhleðslan undir húsinu var endurgerð og styrkt og húsinu um leið lyft um 15 cm. Veggsyllan var endurnýjuð en fúaskemmdir bættar annars staðar. Innan dyra var haldið sem mestu af upphaflegri gerð hússins, gert við glugga í stað þess að smíða nýja, gert við klæðningar o.s.frv. einkum á efri hæð en á neðri hæð voru klæðningar endurgerðar frá grunni. Gerðar voru nýjar dyr frá gallerí á fyrstu hæð að garði, sem gert er ráð fyrir sunnan við húsið.

Verkefnið var unnið fyrir Byggingardeild borgarverkfræðings og í samráði við Dagnýju Helgadóttur arkitekt þar og Árbæjarsafn og Húsafriðunarnefnd ríkisins í mars 2000.

Júlíana Gottskálksdóttir mældi og teiknaði Hafnarstræti 16 árið 1983 og veitti góðfúslega leyfi til notkunar á því efni.