Fríkirkjan í Reykjavík


Lútherskur fríkirkjusöfnuður var stofnaður í Reykjavík 1899 og taldi tíu árum síðar um helming bæjarbúa innan sinna vébanda en töluverðar hræringar í trúmálum og kirkjumálum áttu sér stað kringum aldamótin hér á landi.

Skv. B-skjölum á Borgarskjalasafni keypti Fríkirkjusöfnuðurinn lóð og fékk leyfi til að byggja kirkju 18.5.1901. Lóðin er hluti af erfðafestutúni J. Jónassen á Útsuðurvelli. Lóðin er keypt af Oddfellow-reglunni sem hafði keypt hana og fengið leyfi til að reisa á henni hús þremur árum áður.

Yfirsmiður kirkjunnar var Sigvaldi Bjarnason og er hann talinn frumhöfundur hennar.

Fjórum árum síðar 15. apríl 1905 fær söfnuðurinn leyfi til að stækka kirkjuna til austurs og þá eftir teikningu (?) Rögnvaldar Ólafssonar og var kirkjan þá stærsta timburkirkja landsins. Til eru ljósmyndir af báðum þessum byggingarstigum.

Í virðingargerð 1902 er kirkjunni lýst þannig: "Hús þetta er byggt af bindingi, klætt utan með plægðum 5/4" borðum, pappa og járni þar yfir umhverfis og járnþaki á plægðri súð með pappa á milli. Kirkjan er þiljuð innan og panelpappi á veggjum og hvelfingum, allt málað.

Í henni eru veggsvalir á 3 vegu með sætum.

Við vesturgaflinn er anddyri með tveim uppgöngum og turni, sem allt er byggt af sama efni, sem kirkjan sjálf. Þess skal getið að kirkjan er ekki fullgjör."...

1905 er kirkjan aftur metin og er virðingargerð svohljóðandi: "Fríkirkjusöfnuðurinn í Reykjavík hefur lengt kirkjuhús sitt á lóð sinni á útsuðurvelli í Reykjavík, um 15 al. Hús þetta er bygt í binding, klætt utan með plægðum 5/4" borðum, pappa og járni þar yfir og á þaki. Kirkjan er öll þiljuð innan og panelpappi á veggjum og hvelfingum. Í henni eru veggsvalir á alla vegu og með föstum sætum. Í austurendanum bakvið altari og prjedikunarstól eru 2 uppgangar og inngangur. Við vesturgaflinn er Andyri með 2 uppgöngum, inngangi og turni. Það er alt bygt af sama efni og kirkjan sjálf.( Þess skal getið að í kirkjunni eru 2 reykháfar og 2 ofnar.)"...

"1 stórt og nýtt pípuorgel er í kirkjunni."

Athyglisvert er að veggsvalir eru á alla vegu og predikunarstóll hefur verið framan og neðan við svalir að austanverðu.

Bekkir í kirkjunni eru alls 19 í röð hvorum megin en eru þó ekki allir heilir eða í fullri lengd. Þetta sést af teikningum Einars Erlendssonar sem hann gerir af kirkjunni, "sem hún nú er" og fylgja teikningum hans að nýjum kór 1924.

Í virðingargerð vegna brunabótamats 1924 er kirkjunni lýst þannig að innan:

"Að innan er öll kirkjan með panel og veggir pappalagðir. Loft-hvelfingar eru kalkhúðaðar og öll er kirkjan hvítmáluð innan." ...

... "Niðri í kirkjunni eru 25 fastir bekkir hvoru megin, allir eikarmálaðir og predikunarstóll innst í kirkjunni, að sunnanverðu." ...

Síðar segir (umfram það sem áður er getið í virðingum): "Kórbygging ný hefur verið gjörð við austurgafl Kirkjuhússins, úr steinsteypu á 3 vegu með járnþaki á borðasúð með pappa á milli. Gólf og skilveggir eru úr steinsteypu og gaflinn á kórnum er tvöfaldur. Kórbygging þessi skiftist í kórherbergi, sem er með brjóstpanel. Veggir eru þar fyrir ofan, kalksléttað. Allt hvítmálað. Yfir kórnum er blámáluð hvelfing með gyltum stjörnum. Í kórnum er altari með, með málverki í stafni hans yfir því. Ennfremur eru í viðbyggingunni 2 lítil herbergi og 2 stigagangar. Undir stigum eru annars vegar afþiljað vatnssalerni en hinsvegar geymsluklefi. Hliðveggir viðbyggingarinnar eru þiljaðir innan , lagðir striga og pappa og allt málað. Kjallari er undir aðalkorhúsinu með steinsteypugólfi. Þar er herbergi fyrir miðstöðvarofn og kolageymsla."...

Inn í virðinguna er svo bætt 1926: "Nýtt orgel kr. 40.000.-" en gamla orgelið hafði 1924 verið virt á kr. 8.000.-

Kirkjunni hefur sem sé bæst nýr kór, Einar Erlendsson hefur teiknað breytingarnar og sótt um byggingarleyfi og hefur jafnframt dregið kirkjuna upp eins og hún var.

Teikningar að kórbyggingunni 1924 eru varðveittar hjá byggingarfulltrúanum í Reykjavík, gerðar af Einari Erlendssyni í ágúst 1924. (Ljósrit 4 og 5.) Þar kemur fram að, bekkjum í kirkjunni hefur fjölgað töluvert eða frá 18-19 í 25 hvorum megin, svalirnar eru ekki lengur á alla vegu heldur bara á 3 vegu og predikunarstóllinn hefur verið færður til hliðar við kórinn.

Ár 1941 fer næsta virðing fram. Allt er þá óbreytt annað en að virtar eru 2 viðbyggingar, "sín hvoru megin Andyrisins bygðar úr timbri, járnvarðar, þiljaðar, vírlagðar, múrhúðaðar og málaðar innan".

Þessar byggingar eru teiknaðar af Guðmundi H. Þorlákssyni og eru teikningar hans að breytingunum varðveittar hjá byggingarfulltrúa.

Síðasta virðing sem varðveitt er í skjalasafni borgarinnar er frá 1.2.1944 og 10.5.1945.

Utan þess sem áður hefur komið fram um byggingu hússins er þar sagt um kirkjuna að innan: "Að innan er öll kirkjan með panel og veggir pappalagðir. Lofthvelfingar eru kalkhúðaðar og öll er kirkjan hvítmáluð innan."

Um kórbygginguna segir:"Gólf og skilveggir eru úr steinsteypu. Þar er kórherbergi með brjóstpanel á veggjum allt í kring, en kalksléttaðir þar fyrir ofan og allt hvítmálað.

Yfir kórnum er blá hvelfing með gyltum stjörnum. Í kórnum er altari og yfir því er mynd listmáluð."

Um 1990 er skipt um járn á veggjum, þaki og turni, gert við grind í turni og sprautað steinullareinangrun í veggi. Þessar endurbætur fóru fram undir stjórn Leifs Blumensteins.

Árið 1998 hófst samstarf okkar arkitektanna við stjórnendur Fríkirkjunnar, fyrst gegnum þáverandi byggingardeild borgarverkfræðings en síðan beint.

Í framhaldi af því var tekið nokkuð stórt skref í endurnýjun gólfefnis í allri kirkjunni og smíði  og uppsetningu nýrra kirkjubekkja sem Pétur Lúthersson hafði hannað fyrir kirkjuna. Ennfremur var hljóðkerfi hannað og uppsett og hafði Stefán Guðjohnsen veg og vanda af því. Albert Finnbogason húsasmíðameistari sá um framkvæmdina en Fagmálun ehf. um alla málun og rannsókn á eldri málun. 

Síðan hafa svo frambyggingar með turninum verið endurgerðar, hreinlætisaðstaða og aðstaða prests og kirkjuvarðar bætt, nýir klukkumótorar settir í turninn og raflagnir endurnýjaðar, loftræsing endurgerð og margt fleira, stórt og smátt og enn eru ærin verkefni fyrir hendi í þessari stóru og merku timburbyggingu.

Kirkjan var mæld og teiknuð í ágúst 2006 fyrir ARGOS ehf. af arkitektunum Elisabet Bernsveden og Elias Andersson.