EIRÍKSSTAÐIR Í HAUKADAL


Eiríksstaða í Haukadal er getið í Landnámu og Eiríks sögu rauða og segir þar að Eiríkur og Þjóðhildur kona hans hafi reist sér þar bæ en búið þar reyndar aðeins um skamma hríð. Grafið hefur verið í rúst á Eiríksstöðum nokkrum sinnum, fyrst 1895 en síðast árið 2000 en þá var rannsökuð rúst skála eða langhúss sem talin er frá því skömmu fyrir ár 1000. Á grundvelli þeirrar rannsóknar og í samstarfi við fagnefnd Þjóðminjasafns Íslands var reist tilgáta um hvernig slíkur skáli gæti hafa verið skammt frá rústinni við svipaðar nátturfarslegar aðstæður.

Gamlhús ehf. var verktaki, Gunnar Bjarnason var yfirsmiður en Guðjón St. Kristinsson var torfhleðslumaður. Verkið var unnið fyrir Eiríksstaðanefnd sem naut til þess stuðnings frá Alþingi. Þess má geta að leiðangur Íslendings vestur um haf til Grænlands og Vínlands lagði upp frá Eiríksstöðum.