BRATTAHLÍÐ Á GRÆNLANDI


Vorið 1997 ákvað Vestnorræna ráðherranefndin að reisa skyldi kirkju og bæ í Brattahlíð (Qassiarsuk) innst í Eiríksfirði á Grænlandi. Í Brattahlíð er talið að Eiríkur rauði hafi sest að með Þjóðhildi konu sinni þegar þau flúðu Ísland um árið 1000.

Árið 1961 þegar byggja átti nýja kirkju í Brattahlíð komu í ljós rústir, sem taldar eru að geti komið heim og saman við kirkju þá sem Eiríkur rauði reisti Þjóðhildi og sættist þannig bæði við hana og hinn nýja sið, sbr. Grænlendingasaga. Auk þeirra rústa og byggðaleifa norrænna manna í Brattahlíð sem grafnar hafa verið upp og eru að hluta sýnilegar í dag er talið að enn ein rústin sé þar ókönnuð sem virðist vera af langhúsi eða skála. Skáli svipaðrar stærðar hafði verið grafinn upp og rannsakaður í Vestribyggð, kallaður Bærinn undir sandi, S. Albrechtsen og Guðmundur Ólafsson 1991-96. Sú rannsókn og þær leifar sem þar fundust voru lagðar til grundvallar tilgátuhúsinu í Brattahlíð og rannsókn Knuds J. Krogh og uppdráttur hans af grunnmynd kirkjurústarinnar var lögð til grundvallar tilgátunni um Þjóðhildarkirkju sem svo hefur verið kölluð, auk þess sem stuðst var við stafkirkjur í bókum þeirra Christies og Bugges og stuðst við eftirgerð Þjóðminjasafns Íslands af stafkirkju skv. Hómílíubók og fleiri heimildum sem byggð var og reist eftir uppdráttum Hjörleifs Stefánssonar í Þjórsárdal við sögualdarbæinn.

Kirkjan í Brattahlíð er 2 m að breidd innan veggja og 3,5 m á lengd. Tilgátan er sú að tvöföld súlnaröð hafi skipt þessu litla húsi í miðskip og tvö hliðarskip. Bekkir eru með langveggjum. Kirkjunni skýlir hringlaga, hlaðinn garður um 20 m í þvermál með sáluhliði.

Kirkjan var vígð við hátíðlega athöfn sumarið 2000 og afhent biskupnum yfir Grænlandi en skálinn var afhentur Narsaq sveitarfélaginu til umsjónar og varðveislu.

Yfirsmiður við allt tréverk var Gunnar Bjarnason, hleðslumeistari var Víglundur Kristjansson en Ístak   hf. hafði umsjón með verkinu í heild. Fagnefndina á vegum Vestnorrænu ráðherranefndarinnar skipuðu Hjörleifur Stefánsson og Guðmundur Ólafsson frá Þjóðminjasafni Íslands, Thue Christiansen frá grænlenska menntamálaráðuneytinu Joel Berglund frá grænlenska þjóðminjasafninu og Árni Johnsen  var formaður nefndarinnar.

Verkinu fylgdu uppdrættir og greinargerð á íslensku, dönsku og grænlensku.