AÐALSTRÆTI 10


Á árunum 1998-2006 var mikið verk við uppbyggingu húsa við vestanvert Aðalstræti. Markmiðið var að lyfta götunni til vegs og virðingar á ný með því m.a. að leitast við að endurvekja eftir föngum það yfirbragð götunnar sem hún hafði á gullaldarskeiði sínu sem “Aðalstræti” Reykjavíkur um aldamótin 1900.

Verk þetta hófst með flutningi Minjaverndar á húsinu Ísafold frá Austurstræti 8 á lóð Aðalstrætis 12 og endurgerð þess þar sem lauk 1999. Í september árið 2000 gerðist Reykjavíkurborg aðili að Minjavernd og lagði til félagsins allar eignir sínar við Aðalstræti og í Grjótaþorpi að húsinu Aðalstræti 10 undanskildu. Var það gert með fyrrgreind markmið að leiðarljósi.

Þegar uppbyggingu Ingólfsnausts að Aðalstræti 2 var lokið og ljóst að uppbyggingu Landnámsskála og hótels að Aðalstræti 16 lyki á farsælan hátt var á seinni hlut árs 2004 hafin umræða um hvernig standa mætti að endurgerð Aðalstrætis 10, en Reykjavíkurborg keypti húsið árið 2001. Samningur um samstarf Reykjavíkurborgar og Minjaverndar um það verk fól í sér að Minjavernd tók að sér og fjármagnaði endurgerð gamla hússins sem verður áfram í eigu Reykjavíkurborgar, en byggði nýbyggingu fyrir aftan það sem félagið mun eiga.

Niðurtaka viðbygginga fyrir aftan gamla húsið sem reistar voru 1964 hófust strax í framhaldi af samningsgerð. Eftir að þær höfðu verið teknar niður var hafist handa um að taka innan úr gamla húsinu allar seinni tíma klæðningar og breytingar. Það sem eftir var af upphaflegum klæðningum var mælt vandlega upp og ljósmyndað og tekið niður með það í huga að endurnýta eftir föngum. Einkum voru þiljur veggja og lofta endurnýttar í stærsta herbergi neðri hæðar hússins. Eftir að búið var að taka niður þiljur veggja, lofta og gólf, var framkvæmd fornleifarannsókn inni í grunni hússins, en áður hafði verið framkvæmd könnun á baklóð þess.

 

Örstutt saga Innréttinganna.

Hér er kannski rétt að grípa örstutt á sögu Innréttinganna svokölluðu en þær rekja upphaf sitt til fyrsta hlutafélagsins sem stofnað var á Íslandi á Þingvöllum 17.júlí 1751. Í byrjun árs 1752 fékk hlutafélagið mikinn fjárstuðning og leyfi konungs til framkvæmda og efldist þá mjög. Verkefni þess voru m.a. á sviði jarðræktar, brennisteinsvinnslu, kaðlagerðar, skinnaverkunar, skipasmíða, útgerðar og fiskverkunar en einnig ullariðnaðar og var sú starfsemi ásamt höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík við hina nýju, fyrstu götu þorpsmyndunarinnar, Aðalstræti.

Framkvæmdirnar þessar nefndust á dönsku”De nye Indretninger” eða hinar nýju framkvæmdir og þaðan kom heitið Innréttingarnar, sem hefur verið samheiti yfir framkvæmdir þessar síðan. Af starfsemi þessari varð ullarvinnslan lífseigust en hún var starfrækt fram yfir aldamót til 1803. Innréttingarnar sem félag var leyst upp 1795.

Upphafsmaður og forystumaður í þessari merkilegu tilraun til að renna nýjum stoðum undir islenskt atvinnulíf og iðnað var Skúli Magnússon sem þá var nýlega orðinn landfógeti og umsvif og uppbygging starfseminnar var ekki síst atorku hans að þakka.

Innréttingarnar fengu konungsjarðirnar Reykjavík, Örfirisey og Hvaleyri til afnota.

 

Ágrip af sögu hússins.

Á uppdrætti Lievogs af Reykjavík 1787 má sjá útmælda lóð kaupstaðarins Reykjavíkur og fyrstu götuna, Aðalstrætið, austan undir holtinu. Hús Innréttinganna munu upphaflega hafa verið verið átta talsins við Aðalstræti, upphaflega reist 1752.

Árið 1759 var Marcus nokkur Pahl sendur til Íslands til að gera úttekt á hag og rekstri verksmiðjanna. Hann telur þá alls 19 hús í eigu Innréttinganna, þ.m.t. Árbæ. Timburhús við Aðalstræti eru þá talin 4 alls við götuna, önnur hús Innréttinganna þar eru þá torfhús.

Þar eru talin 1) íbúðarhús, 24x13 álnir, þar sem nú er Aðalstræti 9 –

2) dúkvefnaðarhús, 25 x 11 1/4 alin, þar sem nú er Aðalstræti 10-

3) klæðavefnaðarhús, 20 x 10 ½ alin, þar sem nú er Aðalstræti 12 og

4) geymsluhús, 24 x 10 ¾ alin, seinna gert að lóskurðarstofu, þar sem nú er Aðalstræti 16. (Árni Óla, Reykjavík fyrri tíma, 3. bindi, bls. 60-61).

Lýsing þessi á því væntanlega við um þau timburhús sem byggð voru á vegum Innréttinganna 1752. Fimm árum eftir þessa lýsingu kom upp eldur í verksmiðjuhúsunum og brunnu 3 þeirra til kaldra kola. Bruninn er talinn hafa orðið aðfaranótt 30. mars þetta ár. Í þessum bruna er talið að dúkvefnaðarhúsið, Aðalstræti 10 hafi brunnið (ÁÓ).

Sama ár var hafist handa við að byggja húsin upp að nýju og þó þess sé hvergi nákvæmlega getið hefur þá einnig væntanlega verið reist nýtt hús á lóð dúkvefnaðarhússins, sem nú er nr. 10 við götuna.

Skv. lýsingu Pahls 1759 átti dúkvefnaðarhúsið að hafa verið 25 x 11 ¼ alin en húsið sem nú stendur er 20 ¼ alin á lengd eða tæpum 3 m styttra. Nýja húsið var ekki kallað dúkvefnaðarhús heldur kallað íbúðarhús aðstoðarforstjórans eða “Kontor- og Magazinhus” eða “Hus til Klædevarernes Conservation og Underköbmandens Logemente”.

Þegar Hús Innrétinganna voru seld 1790 keypti Westy Petræus kupmaður nokkur þeirra og þ.á m. Aðalstræti 10 sem nú er og var húsið þá kallað Petræusarhús.

Árið 1806 flutti Petræus til útlanda og það ár býr Tómas Klog landlæknir í húsinu.

Árið 1807 keypti Geir Vídalín biskup húsið að nafninu til en konungur keypti í raun alla eignina og mun ætlunin hafa verið að stofna þar biskupssetur. Húsið var þá kallað Biskupsstofa og var kallað svo fram undir aldamótin 1900. Skrifstofa biskups var í norðurenda hússins. Að biskupnum látnum 1822 fór fram skoðun á húsinu og var það þá talið svö hrörlegt að ekki væri hægt að gera svo vel við að það yrði biskupssetur áfram. Sigríður Halldórsdóttir, ekkja Geirs biskups bjó í húsinu til æviloka 1846.

Árið 1848 keypti Þorsteinn Jónsson Kúld kaupmaður húsið og átti til æviloka 1860 og mun hann hafa látið gera við húsið. Árið 1861 keypti W. Fischer húsið og seldi árið eftir 1862 Jens Sigurðssyni sem bjó þar þangað til hann varð rektor Latínuskólans 1868. Árið 1869 eignaðist Jón Hjaltalín landlæknir húsið og býr þar til ársins 1880. Í matsgerð 1874 er húsið í eigu Kristjönu Jónsdóttur og er þakið þá sagt helluklætt.

Árið 1880 eignaðist Matthías Jóhannesson húsið og bjó þar til 1892. Síðasta árið býr hann þar á móti Þorvaldi Björnssyni lögreglumanni í tvíbýli en 1892 –94 býr Þorvaldur þar í tvíbýli á móti Benóný Benónýssyni skósmiði. Árið 1895 eignaðist Helgi Zoega kaupmaður húsið og fluttist þangað. Hann breytti húinu í sölubúð sem þar var æ síðan og frá 1926 í eigu Silla og Valda sem m.a. byggðu við húsið baka til.

Árið 1984 var húsinu breytt í veitingahús og var svo fram undir breytingar þær sem nefndar voru í inngangi árið 2005.

Árið 1822, 23. júlí, var húsið skoðað eins og fram kemur hér að ofan. Skoðunargerðin er ýtarleg og gefur glögga mynd af stærð og gerð hússins og herbergjaskipan. Ákveðið var að fara sem næst þessari lýsingu við endurgerð hússins.

Með samningi við Reykjavíkurborg í maí 2005 tók Minjavernd hf. að sér endurbyggingu hússins og nýbyggingar á baklóðinni. Í samræmi við það var byrjað að fjarlægja bakhúsið sem byggt hafði verið 1964 (skv. teikningum Skarphéðins Jóhannssonar fyrir Silla og Valda) en sú bygging, sem var á 2 hæðum, var steypt að miklu leyti, steypt gólfplata og bakveggur, hlaðnir gaflar og hafði verið hlaðið inn með gafli gamla hússins að lóð nr. 12. Sá veggur hefur væntanlega bjargað Aðalstræti 10 frá bruna 1977 þegar húsið á lóðinni nr. 12 brann að mestu til grunna. Við þessar breytingar hefur burðarvirki gamla hússins, þ.e. grindarbyggingu á vesturhlið verið breytt mjög mikið, grindin svo til fjarlægð, settur stálbiti undir og bakhúsið tengt þar við og þak þess lagt upp á þak gamla hússins. Nú var bakbyggingin fjarlægð, stoðað undir bakvegginn og byrjað að tína niður lag fyrir lag seinni tíma klæðningar og breytingar til að sjá hvað eftir lifði af hinu gamla húsi.

Þegar seinni tíma klæðningar höfðu verið fjarlægðar og stutt undir vegglægju eða efri syllu vesturhliðarinnar kom í ljós að sperrur voru allar heilar nema syðsta sperruparið (næst nr. 12), skarsúðarklæðningin á austurþekjunni var nær öll óhreyfð, en á vesturþekjunni niður að viðbyggingu frá 1964. Skammbitar voru uppi á fyrstu fimm sperrum að norðan. Öllum skammbitum hafði verið lyft frá fyrstu stöðu en mismikið, fyrstu tveimur og fimmta skammbita (og sjötta og sjöunda, sem höfðu verið fjarlægðir) meira en þriðja og fjórða minna. Lofthæð í herbergjum á efri hæð hefur þannig verið aukin, þegar húsið er tekið til íbúðar. Þar áður má gera ráð fyrir að loft hafi verið yfir og háaloft. Gólf á lofti var að mestu á sínum stað í 3. – 7. fagi en horfið annars staðar. Borðin vorum 30 mm þykk og klæddu 8” –10” og lágu yfir eitt bitabil nema í 3. og 4. fagi þar sem þau lágu yfir tvö bitabil. Í þriðja fagi að vestanverðu má telja að sést hafi far eftir stigaop á loftið.(Sbr. skoðunargerð 1822 og mælingarteikning nr. 6, gólfborð á 2. hæð.)

Á efri hæð mátti jafnframt sjá klæðningar í herbergjum til beggja handa bæði klæðningar portveggja með breiðum (20-25 cm) lóðréttum þiljum og klæðning súðarinnar sem klædd var plægðum borðum með álímdum pappa í norðurherbergi. Loft var einungis klætt yfir herbergi í norðurgafli. Það herbergi var skrifstofa þeirra félaga Sigurlinna Kristjánssonar og Þorkels Valdimarssonar, Silla og Valda, og þaðan ráku þeir verslunarveldi sitt um allan bæ. Stóri glugginn á gaflinum var gerður um leið og byggt var á baklóðinni 1964.

Leifar voru tveggja kvista að talið er á austurþekjunni í þriðja sperrubili að norðan, minni kvistur og í sjöunda bili stærri kvistur. Ennfremur voru í fimmta og sjötta bili þakgluggar seinni tíma úr járni.

Nokkrir þilveggir seinni tíma voru á loft en undir fimmtu sperru á lofti var þil með dyraopi og hurðarblaði sem virðist nokkuð gamallegt, spjaldahurð með tveimur spjöldum (sneiðingar BB og FF).

Á neðri hæð var norðurgaflinn að mestu heill og ósnertur, þó hafði verið múrað upp í dyraop og gluggaop fyrir miðjum gafli en (upphaflegur?) múr í öðrum bindingi þar, en þar var múrað með holtagrjóti. Reyndar hafði að líkindum einnig verið múrað upp í binding í gaflhyrnunni, a.m.k. var enn bindingur í þeim bilum á efri hæð sem ekki hafði verið raskað. Þar var múrað með múrsteini, steinninn var rauður, 5x12,5x17,5 cm. Kalkmúrað hafði verið yfir bindinginn og hafði verið skáhöggvið í bindinginn til að binda betur múrinn. Vegglægja var að mestu óhreyfð á austurhlið en gert hafði verið við hana um miðbikið og í henni nokkur fúi. stoðir voru þar ýmist óhreyfðar eða sýnilegar þar sem gluggar höfðu verið stækkaðir, loftbitar voru lítið hreyfðir, langás undir bitum heillegur en skipt hafði verið um allar stoðir undir ásnum, settar átthyrndar stoðir undir klæddan ásinn. Ljóst var að austurhlið hússins, einkum norðurhluti hennar hafði sigið verulega á einhverjum tíma, líklegast um eða undir aldamótin 1900. Sigið hafði dregið með sér loftbitana (gólfbita 2. hæðar) svo mjög að gripið hafði verið til þess ráðs, hugsanlega þegar endurbyggingin var gerð um 1964, að saga gólfborðin á loftinu frá gaflbitanum til að draga úr miklum halla sem þá hefur verið kominn í gólfið og klætt síðan yfir það á nýjan leik með plötum og dúk. Hæðarmunurinn nú mældist um 13 cm á borðunum.

Sylla á vesturhlið var heil svo til alla leið á hana vantaði aðeins suðurendann, hálft síðasta bitabilið og hefur hún því greinilega náð alla lengd hússins. Miðsyllan eða miðjubitinn (5”x5”) var sömuleiðis heillegur þó tekið hafi verið úr honum vegna dyraops en náði skemmra, vantaði tvö syðstu bitabilin.

Yngstu klæðningar á neðri hæð voru einfaldar 13 mm gifsplötur sem klæddar höfðu verið á 12 mm spónaplötur á 1” afréttingargrind, þar undir masonite plötur á upphaflega klæðningu. Elstu klæðningar á veggjum á norðurgafli og austurhlið voru nokkuð heillegar (sjá mælingarteikningu). Þar var um að ræða stokkaþil, þar sem listar með nót eru við gólf og loft en plægðum þiljum rennt í nótina. Þiljur þessar voru misbreiðar frá 15 cm í 25 cm. Á austurhlið voru leifar af álímdu veggfóðri?

Gólfborð á neðri hæð komu í ljós undir plötum og öðru dóti sem byggt hafði verið ofan á væntanlega elstu borðin (sjá mælingauppdrátt). Þetta voru reyndar fyrst og fremst leifar af gólfborðum, að hluta til í fyrsta bitabili að norðan og í sjötta bili. Efsta gólf var 18 mm eikarparkett límt á 4 mm krossvið á afréttingarlagi. Þar undir var 12 mm krossviður sömuleiðis afréttur ofan á gólfdúk en þar undir voru gólfborðin, 29 mm þykk og heildargólfþykkt þannig um 97 –100 mm um 5 cm fyrir ofan moldarjarðveginn milli bita. Borðin voru í nokkrum breiddum, klæddu frá 10 upp í 175 mm.

Þegar borðin voru fjarlægð komu í ljós leifar af gólfbitum. Þeir voru austan langáss eða syllu og norðan inngangsins. Enginn biti náði alla leið frá veggsyllu að langsyllu heldur lágu þeir í jarðveginum og voru við fyrstu sýn m.a. einkennilega staðsettir (1/2 m frá gafli að norðan. Ennfremur voru þeir sérkennilega umbúnir, líkt og þeir væru lagðir í þrær sem hlaðnar voru undir og upp með þeim langleiðina.

Bitar þessir voru mældir sérstaklega bæði af arkitektum og fornleifafræðingum en þeir hófust handa við rannsóknir þegar gólborð höfðu verið fjarlægð.

Kom þá einnig í ljós hleðsla eða steinsetning mikil undir ofninum sem síðar varð. Púkkið nær langt út fyrir þann ramma sem telja má að hafi markað undirstöðu ofnsins, sem bendir til að óljóst hafi verið hvar eða hversu stórt ofnstæðið skyldi vera.

Loftbitar á neðri hæð, þ.e. gólfbitar á lofti voru allir á sínum stað, náðu yfir syllur og undir sperrur, grópað úr fyrir syllum og tekið úr fyrir sperrur. Sperrur voru blaðaðar saman hálft í hálft í mæni. Allir bitar voru klæddir af og voru að hluta til (?) gamlar klæðningar undir og á hliðum bitanna, réttar af með listum. (strik?)

Svo virðist sem loft hafi verið klædd upp á milli bita. Í fyrsta og öðru bitabili að norðan voru plægð borð, (stærðir), en í þriðja og fjórða bili voru loftaþiljur í stokkum 16 –18 cm breiðar (þykkar), sjá langsneiðingu. Yngri klæðning var í fimmta bili en í sjötta bili voru strikaðir listar undir samskeytum gólfborða en og ummerki um slíka lista í sjöunda bili. Í sömu bilum vestan langáss voru leifar af stokkaþiljum og stokkum.

Yfirleitt hafði verið klætt neðan á loftklæðningar með gifsi á seinni tíma og settur plasthúlkíll til skrauts.

Skorsteinspípa úr hlöðnum múrsteini gekk beint upp frá fyrstu hæð upp í skammbitahæð á lofti en beygði þar bæði til norðurs og vesturs til að ganga upp úr þaki í miðju bitabili og í mæni.

Sem fyrr var getið fór fram fornleifarannsókn í grunni hússins eftir að innveggir og gólf hafði verið fjarlægt.

 

Ágrip af greinargerð Mjallar Snæsdóttur, Fornleifastofnun Ísslands, sem unnin var fyrir borgarminjavörð fer hér á eftir.

Vegna endurbyggingar og viðgerða á húsinu Aðalstræti 10 gerði Fornleifastofnun Íslands rannsókn inni í húsinu 11. ágúst - 9. september 2005. Endurbyggingin var talin útheimta að jarðvegur yrði lækkaður undir gólfi vegna einangrunar og lagna og einnig þyrfti að grafa niður til að styrkja undirstöður hússins. Fyrirhugað var að lækka jarðveg undir gólfi um 0,80 m og grafa sums staðar niður á fast til að treysta undirstöður og steypa nýjar.

Við rannsóknir á nálægum lóðum við Aðalstræti vestanvert hafa víða komið í ljós minjar, bæði frá tímum Innréttinganna á 18. öld, og eldri, margar frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Býlið Reykjavík hafði staðið á þessum slóðum um aldir, og hafa minjar frá því fundist allt frá Vonarstræti sunnanverðu.1 Við rannsókn á lóð Aðalstrætis 12 og athuganir sem gerðar voru á svæði undir gangstétt austan þess kom í ljós að þar höfðu verið byggingar frá 10.-12. öld, og m.a. lá húsveggur norður með húsinu Aðalstræti 12.2 Á lóðunum Aðalstræti 14-18 höfðu einnig fundist minjar bæði frá Innréttingatímanum og frá fyrstu öldum byggðar í landinu.3 Af þessum sökum var hægt að búast við að eldri minjar væru undir Aðalstræti 10. Hins vegar höfðu rannsóknir á lóð Aðalstrætis 8 ekki leitt í ljós eldri minjar en frá 19. öld4 og við rannsókn á reitnum milli Austurstrætis, Aðalstrætis, Hafnarstrætis og Veltusunds komu ekki fram eldri minjar en frá 18. öld .5

Ekki hafði verið kjallari undir húsinu Aðalstræti 10, og hafði eldri mannvistarlögum lítt eða ekki verið raskað þar, nema hvað gólf allra syðst í húsinu hafði verið grafið niður dýpra. Ekki liggur fyrir með vissu hvenær það var gert, en vitað er að syðsti endi hússins, sunnan við eldstæðið gamla, er yngri en aðrir hlutar hússins.6

Þegar gólf í húsinu hafði verið fjarlægt kom í ljós að undir því mátti sjá 5-6 steinaraðir sem lágu um þvert húsið. Steinaraðirnar voru yfirleitt tvöfaldar með 10-20 cm bili á milli, og víða var grjót einnig í botni. Þannig mynduðust “rennur”, 7-14 cm að dýpt. Þetta er líkast því að timburplanki hafi átt að hvíla í bilinu og hafi gólffjalir síðan verið lagðar þar ofan á. Undir steinaröðunum og milli þeirra var fremur þunnt sandblandið lag, en þar undir lög úr rótaðri mold, lítillega móöskuborinni og torfblandaðri.

Um húsið þvert, um það bil 4,40 m frá norðurgafli, mátti sjá rúmlega 6 m langa steinaröð. Ekki er fullljóst hvaða tilgangi þess röð hefur þjónað. Hún hefði getað verið undirstaða undir millivegg í húsinu, en arkitektarnir sem mældu það upp telja að vart geti hafa verið slíkur milliveggur á þessum stað. Hugsanlegt er að röðin séu leifar af vegg í eldri byggingu á staðnum, sem þá getur ekki hafa staðið lengi. Líklegra er þó að steinaröðin sé leifar af grjótgarði sem legið hefur upp brekkuna.

Eldstæðisundirstaða var í syðri hluta hússins. Hún virðist vera gerð á sama hátt og eldstæði sem leifar voru af í Aðalstræti 16, húsi sem einnig var frá tímum Innréttinganna en þær minjar voru rannsakaðar með grefti 2001.7 Hún hefur verið gerð þannig að grafin hefur verið allstór hola, að því að best verður séð ferhyrnd, og hún síðan fyllt af grjóti. Þar ofan á voru leifar af eldstæði, múrsteinar. Þeir, sem standa að endurgerð hússins, vildu halda eftir undirstöðunum, enda á að hlaða eldstæði ofan á þeim að nýju, en það hafði verið fjarlægt fyrir löngu. Ef til vill hefur það gerst þegar húsinu var breytt úr íbúðarhúsi í verslun seint á 19. öld. Þess var gætt við uppgröft að skilja eftir moldarhaft umhverfis eldstæðisundirstöðurnar til að þær hryndu ekki út.

Þegar neðar dró var víðast hvar undir húsinu komið í móöskulög. Móaskan er án efa úr eldstæðum úr nálægum húsum, aska sem hefur verið borin út, þegar hreinsað var út úr þeim. Öskulög þessi voru allþykk, en miðað við fundna gripi eru þau að mestu eða öllu mynduð á 18. öld. Öll lögin undir gólfundirstöðunum hafa verið mynduð fyrir byggingu hússins, en þau efstu hafa eitthvað raskast við þá byggingu. Þá voru þau lítillega röskuð af músa- eða rottuholum.

Þegar móöskulögunum sleppti var komið í lag af lítt hreyfðri mold. Það var ekki allt fjarlægt, en gerðar í það allmargar könnunarholur. Það reyndist á bilinu 0,2- 0,5 m að þykkt. Undir því var komið í malarlag það sem er undir öllum miðbæ Reykjavíkur milli Tjarnar og sjávar. Í sumum af könnunarholunum mátti sjá hið svonefnda landnámslag, tvílitt gjóskulag sem talið er fallið árið 871 +/- 2 e.Kr.8 og lá það ofan á malarlaginu. Í sumum af holunum var það reyndar ekki sýnilegt.

Ekki varð vart neinna mannvistarummerkja eldri en frá 18. öld. Það getur bent til að hér sé komið norður fyrir bæjarstæði Reykjavíkurbæjarins.

Byggingin á baklóðinni er því sem næst af sömu stærð og í sama formi og framhúsið, efniviðurinn er þó annar og yfirbragðið frábrugðið, það er steinhús, einangrað að innan en pússað að utan með hvítu sementi.

Milli þessara tveggja bygginga er tengiliður úr járni og gleri, sem leyfir áfram ásýnd gamla hússins frá því nýja og öfugt og veitir birtu inn í bæði húsrýmin.

Undir tengibyggingu og bakhúsi er svo kjallari sem unnt er að tengja beint við neyðarútgang frá landnámssýningarkjallaranum þegar og ef.

Aðalstræti 10 er eitt af elstu húsum Reykjavíkur, ef ekki það elsta. Þar væri hægt að segja sögu Reykjavíkur 18. aldarinnar, sögu Innréttinganna og upphafssögu þéttbýlisins og enginn staður betur til þess fallinn.

1 Howell M. Roberts (ritstj.) 2001 , Kristín H. Sigurðardóttir 1987, bls. 143-164.

2 Bjarni F. Einarsson 1995 og 1999.

3 Else Nordahl 1988; Howell M. Roberts (ritstj.) 2001.

4 Margrét Hallgrímsdóttir 1987, bls 50-52.

5 Bjarni F. Einarsson 1994..

6 Guðm. Ingólfsson ofl. 1987, bls. 76.

7 Howell M. Roberts (ritstj.) 2001.

8 Karl Grönvold o.fl. 1995.