Apr
24

Franski spítalinn hlaut viðurkenningu Europa Nostra 2016


Myndir: Guðmundur Ingólfsson / Ímynd ©

Minjavernd hlaut fyrir skömmu viðurkenningu fyrir endurbyggingu og breytingar og heildaruupbyggingu við Franska spítalann á Fáskrúðsfirði, EUROPEAN UNION PRIZE FOR CULTURAL HERITAGE / EUROPA NOSTRA AWARDS 2016, Evrópsku menningarverðlaunin fyrir verkefni á sviði menningararfleifðar / Europa Nostra verðlaunin 2016.

Minjavernd hóf að leiða huga að húsum þessum og sögu árið 2007. Þá var séð fyrir enda á umfangsmiklu starfi félagsins að endurgerð húsa við Aðalstræti og Vesturgötu í Reykjavík og áhugi í stjórn félagsins á verkefni úti á landi. Verkefnið óx í huga og veruleika stig af stigi. Franski spítalinn var mældur upp úti á Hafnarnesi 2008 og sama ár var Fjarðabyggð kynntur áhugi félagsins á verkefninu. Upphaflega voru hugleiðingar uppi um að endurbyggja húsið úti á Hafnarnesi, en fljótlega var horfið frá því og stefnan tekin inn á Fáskrúðsfjörð. Fyrst var skoðaður möguleikinn á að setja hann á sinn upphaflega stað, en einnig var horfið frá því í ljósi breyttra kringumstæðna á þeim stað. Lóð neðan Hafnargötu, neðan Læknishúss var hins vegar auð. Því var tekin sú ákvörðun að endurreisa húsið þar og í framhaldi færðist hugsun yfir til Læknishússins og tengingar húsanna undir Hafnargötu. Þar til viðbótar var síðan tekin ákvörðun um að endurgera Sjúkraskýlið vestan Læknishússins, kaupa Kapelluna og flytja hana að vesturhlið Sjúkraskýlisins þannig að húsin tvö hefðu sömu afstöðu innbyrðis og í umhverfi og þau höfðu upphaflega. Þar til viðbótar var ákveðið að endurgera Líkhúsið einnig. Þessum fyrri hluta verkefnisins var lokið í júníbyrjun 2014 og húsin þá tekin í notkun.

(Skáletraði textinn hér að framan er úr fréttatilkynnngu Minjaverndar 7. apríl sl. Ljósmyndirnar eru eftir Guðmund Ingólfsson og voru hluti umsóknarinnar. Benda má á hrimasíðu Minjaverndar www.minjavernd.is)

Nánar má lesa um viðurkenninguna, verðlaunin og önnur verkefni sem valin hafa verið á vef Europa Nostra : http://www.europanostra.org/news/748/ 

Viðurkenningar verða veittar í Madrid 24. maí nk. en þar verða jafnframt veitt sérstök peningaverðlaun sjö verkefnum sem sérstök dómnefnd ákveður. Forseti samtakanna Europa Nostra er Placido Domingo. Almenningi gefst kostur á að greiða einhverjum verkefnanna atkvæði sitt á sérstökum vef til og með 8. maí nk., sjá: http://vote.europanostra.org/. Velja má 3 verkefni, en verkefnið sem fær flestar tilnefningar hlýtur sérstök almennings verðlaun, Public Choice Award.

Segja má að viðurkenning þessi marki líka sérstök tímamót í 40 ára samstarfi okkar arkitektanna, ARGOS ehf, Arkitektastofu Grétars og Stefáns og Minjaverndar, ef telja má að það hafi hafist með uppbyggingu Móhúsanna við Skólastræti eða bakhúsanna á Bernhöftstorfunni eftir brunann 1977. Reyndar var það í nafni Torfusamtakanna og arkitektastofan hét öðru nafni en þetta hafa verið sömu kallarnir allan tímann, samstarf okkar Grétars við Þorstein Bergsson hefur verið farsælt, kannski ekki alltaf friðsælt(!) en fjölbreytt og lærdómsríkt og kannski umfram allt árangursríkt. Þessi viðurkenning nú er því eins konar afmælisveisla þessa samstarfs auk þess að vera alþjóðleg viðurkenning á þessu starfi sem er okkur öllum auðvitað mikils virði. Við erum því þakklátir fyrir viðurkenningu Evrópusamtakanna en einnig þakklátir fyrir samstarfið við Þorstein og Minjavernd gegnum öll þessi ár og öll þessi verk. Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá Fáskrúðsfirði, sögu Fransmanna við fiskveiðarnar, flutning hússins og hugmyndina um endurbyggingu heildarinnar og varðveislu byggingar- og menningarsögulegra verðmæta og hlutdeild í uppbyggingu ferðaþjónustu á Austurlandi. 

Einar Hlér Einarsson arkitekt var starfsmaður okkar mest allan þennan tíma og á sinn stóra þátt í þessu verkefni. Hann byrjaði reyndar sinn fyrsta dag í vinnunni á að fara austur á Fáskrúðsfjörð ásamt Grétari og Þorsteini Bergssyni og Bergi Þorsteinssyni sem einnig er arkitekt og starfar nú í Noregi, en þá var Spítalinn mældur upp og teiknaður á Hafnarnesi.