Aug
05

Augu Argosar

 

 


Mynd: GPÓ

Það eru bráðum tíu ár síðan við fluttum hér út á Eyjarslóð 9. Teiknistofan hafði fram að því og frá stofnun 1991 verið kennd við heimilisfang sitt á Skólavörðuholtinu. Það þótti ekki ganga lengur eftir að komið var hér út í hafsauga og ARGOS ehf. varð fyrir valinu sem nafn og stytting fyrir ARkitektastofu Grétars Og Stefáns. Og þó maður gerði sér grein fyrir að borgríki í Grikklandi til forna hafi heitið sama nafni og einhver önnur fyrirtæki úti í heimi bæru svipað eða sama nafn, þá varð þetta ofan á.


Nokkru seinna kom bréf frá Guðmundi Páli Ólafssyni en við vorum kunningjar og höfðum átt nokkra samleið áður. Hann var þá nýkominn heim frá ferðinni um Amasón.

 

Bréf Guðmundar Páls fer hér á eftir:

 

Blessaður, Stefán

Argos var alsjáandi og þótt dauður sé fylgist hann áfram með. Hér er ágæt lýsing á Argosi : http://www.visindavefur.is/svar.php?id=4500

Augu Argosar eru á stéli páfuglsins og þegar ég hef endurheimt allar mínar myndir skal ég láta þig hafa gæðamynd af augum Argosar tekna á Amasonsvæðinu.

Flott nafn á arkitektastofu þótt uppruninn hafi annar verið en einhver dulhyggju-sveimhuginn gæti þó komist að þeirri niðurstöðu að sjálfur Argos sé með í för og fylgist með ykkur.

Sendi Sólbakkamælingar fljótlega.

Mbkv, gpó

 

Myndin af augum Argosar er hér að ofan. Hún er í miklu dálæti hjá okkur.