Mar
12

Myndir úr Hannesarholti


 

 

 

 

 

Tilnefningar til Menningarverðlauna DV fyrir árið 2013 voru birtar fyrir skömmu. Veitt eru verðlaun í fjölmörgum flokkum og þ.á m. fyrir byggingarlist. Að þessu sinni eru tilnefnd 5 verkefni: Háskólinn á Akureyri, höfundar Gláma-Kím:- Sæmundargarðar (stúdentagarðar) í Reykjavík, arkitektar Hornsteinar; Göngu- og hjólabrýr yfir Geirsnef, arkitektar Teiknistofan Tröð; Fellastígur í Breiðholti, arkitektar Skyggni frábært og nemendur Fellaskóla og síðast en ekki síst, Hannesarholt, Grundarstíg 10, höfundar ARGOS arkitektar í samstarfi við Árna Þórólfsson arkitekt um innri frágang og Reyni Vilhjálmsson landslagsarkitekt / Landslag ehf.  um ör-lóðina sem eftir var að Skálholtsstíg.

Öllum frágangi er ekki endanlega lokið en starfsemin í Hannesarholti hefur verið mikil og vaxandi síðan hún hófst fyrir rúmlega ári síðan. Mikið tónlistarlíf, konsertar af ýmsu tagi, fundir, ráðstefnur og ekki síst veitingastaður í hádegi og síðdegis, nú síðast undir nafninu Borðstofan í höndum Sveins Kjartanssonar.

Húsið Grundarstígur 10 er upphaflega byggt 1916 eftir uppdráttum Benedikts Jónassonar verkfræðings sem var bæjarverkfræðingur í Reykjavík á þeim tíma. Hannes Hafstein lét reisa húsið fyrir sig og fjölskyldu sína, úr steinsteypu og "óbrennanlegu efni", en hann hafði orðið vitni að Reykjavíkurbrunanum mikla 1915. Nánar er fjallað um húsið á heimasíðu Hannesarholts, www.hannesarholt.is og húsinu verða gerð ítarlegri skil hér síðar ef guð lofar. Myndirnar sem birtast hér hefur Guðmundur Ingólfsson ljósmyndari tekið.