SÓLFELL Í ÆGISGARÐI


Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar veitti fisksöltun og þurrkun í fiskvinnslustöðvum á ströndum Reykjavíkur fjölda fólks atvinnu. Talið er að í kringum 1920 hafi fimmti hver Reykvíkingur haft lífsviðurværi sitt af fiskvinnslu, ýmist í Ánanaustum hjá Alliance, við norðurströndina hjá Kveldúlfi og Defensor eða alla leið inni við Kirkjusand hjá Íslandsfélaginu á innra Kirkjusandi eða Th. Thorsteinssyni sem var með aðstöðu á ytra Kirkjusandi. Á öllum þessum stöðvum voru reist mikil fiskvinnsluhús auk íbúðarhúsa fyrir starfsfólkið. Nú hafa öll þessu hús verið rifin nema hluti húsa Alliance í Ánanaustum og húsið sem hér er sýnt. Húsið Sólfell reisti Th. Thorsteinsson á Kirkjusandi sem fiskþurrkunarhús árið 1921 eftir að mörg húsanna þar höfðu brunnið árið áður. Húsið er samofið atvinnusögu Reykjavíkur.

Því hefur nú verið fundinn staður á nýrri lóð við Ægisgarð í Reykjavík. 

Fyrstu mælingar voru gerðar sumarið 2007. Húsið var síðan flutt og geymt um skeið í Gufunesi, endurgert á Slippsvæðinu 2010 og flutt á nýja lóð vorið 2011. Verkefnið var unnið fyrir Minjavernd.

(Upplýsingar hér að ofan eru að hluta til byggðar á greinargerð Nikulásar Úlfars Mássonar 2006).

Myndirnar sem hér eru birtar eru m.a. frá Kirkjusandi áður en húsið var flutt þaðan, mynd Magnúsar Ólafssonar frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur sem sýnir fiskþurrkun á Kirkjusandi, þrívíddarmynd (EHE/ARGOS ehf.) sem sýnir tillögu að húsinu endurgerðu við Ægisgarð og síðan ljósmyndir Guðmundar Ingólfssonar/Ímynd sem teknar voru nú í vetur. Myndir eru birtar með leyfi höfundar og Minjaverndar hf.