VAKTARABÆRINN VIÐ GARÐARSTRÆTI


Vaktarabærinn, Garðastræti 23 í Reykjavík var kallaður svo eftir Guðmundi Gissurarsyni vaktara sem talið er að hafi byggt húsið 1848 eða skömmu áður. Guðmundur var vaktari bæjarins frá 1830 til 1865 og tók við starfinu af föður sínum. Embætti vaktara hafði verið í Reykjavík með hléum frá 1780. Húsið var hluti bæjarhúsanna í Grjóta, eins elstu bæjanna í Reykjavík og þess sem Grjótaþorpið heitir eftir. 

Gerð var lýsing á öllum timburhúsum í Reykjavík árið 1844 en bæjarhúsanna í Grjóta er þá ekki getið, þar sem hann var torfbær og öll bæjarhúsin þá úr torfi og grjóti. Nokkrum árum seinna, 1848, er gerð önnur lýsing á öllum húsum í bænum þar sem þess er getið að Guðmundur Gissurarson vaktari hafi byggt pakkhús, 6 x 5,5 álnir (3,8 x 3,5 m) að stærð. Árið 1856 er Guðmundi leyft að lengja pakkhúsið og í lýsingu húsa í bænum 1860 hefur pakkhúsið þá verið lengt um 4 álnir og er þá orðið 10 x  5,5 álnir (6,3 x 3,5 m). Þetta kemur heim og saman við og er í grunninn það hús sem enn stendur á lóðinni sem nú heitir nr. 23 við Garðastræti.

Farið var að búa í húsinu 1868 svo skráð sé þegar Stefán Egilsson, sem átt hafði húsið í tæpt ár seldi það Ingiríði Ólafsdóttur ekkju. Hann keypti það svo reyndar aftur 1880. Kona Stefáns var Sesselja Sigvaldadóttir, ljósmóðir. Synir þeirra voru Sigvaldi Kaldalóns tónskáld, Snæbjörn togaraskipstjóri, Guðmundur glímukappi og Eggert söngvari, sem allir fæddust í húsinu nema sá yngsti Eggert. Stefán seldi Jóni E. Jónssyni húsið árið 1889.

Í brunavirðingu 10.7.1874 er húsi Ingiríðar lýst svo:

Íbúðarhús 10 al. á lengd, 5 ½ al. á breidd, veggjahæð 3 ¼ al.- úr binding, múruðum að helmingi úr holtagrjóti, klætt borðum og með borðaþaki.- 1 herbergi auk eldhúss.

Fjórtán árum síðar er Ingiríður fallin frá og gerð er ný brunavirðing 3.7.1888, aðeins ítarlegri:

Grjótagata Nr. 68. Realregister Nr. 4. Hús dánarbús Ingiríðar Ólafsdóttur. Hús þetta sem er 10 ál. á lengd 5 ½ ál. á breidd og 3 ¼ ál. á hæð úr bindingi múruðum með hraungrjóti og borðaþaki og borðaklæðningu. Í húsi þessu eru 2 herbergi, auk eldahúss, og er annað sumpart klætt borðaþiljum og sumpart pússað með kalki, og einföldu lopti; hitt herbergið er þiljað með borðum og með einföldu lopti og er í því ofn. Bæði herbergin eru máluð. Uppi á loptinu er húsið ekki að öðru leiti innrjettað að því er skipt í tvennt.

Við austurthlið hússins er skúr, og í honum er matarherbergi. Hver hlaupandi alin var virt á 70 kr., 1 eldavjel 50 kr. 1 ofn 36 kr, alls 786 kr.

Undir virðinguna rita O. Finsen, M. Árnason (Magnús Árnason trésmiður) og Björn Guðmundsson (múrari).

Búið var í húsinu fram á miðjan sjöunda áratug tuttugustu aldar. Í manntölum kemur fram að um 1930 og fram til 1962 búa að jafnaði 6-7 manns í húsinu þegar skráð er.

Vaktarabærinn var að öllum líkindum fyrsta timburhúsið sem byggt var í Grjótaþorpi, fyrir utan hús Innréttinganna við Aðalstræti. Vaktarabærinn er jafnframt eina húsið sem eftir stendur af bænum Grjóta sem var hjáleiga frá Víkurbænum, ein af átta slíkum sem getið er í Jarðabókinni 1703, en jörðin var lögð hinum nýstofnaða kaupstað Reykjavík til við stofnun hans 1786. Í greinargerð með fornleifakönnun á lóðinni hefur Mjöll Snæsdóttir tekið saman allar helstu ritaðar heimildir um bæinn Grjóta. Þar kemur fram að hans er með vissu getið 1703 en er þó væntanlega eitthvað eldri.

Húsið er friðað skv. ákvæðum þjóðminjalaga nr. 104/2001 þar sem hús reist fyrir 1850 eru sjálfkrafa friðuð, ekki er gefin út sérstök friðlysing frá menntamálaráðuneytinu heldur gildir hið almenna ákvæði.

Í Grjótaþorpi er í gildi deiliskipulag sem samþykkt var í heild sinni í borgarráði 30.7.2002 með nokkrum seinni breytingum á einstökum lóðum. Í deiliskipulaginu er Grjótaþorpið í heild skilgreint sem svæði sem lagt er til að vernda, auk þess sem innan reitsins eru tvö friðuð hús og þrjú hús sem lagt er til að verði friðuð. Annað þessara friðuðu húsa er Vaktarabærinn eða Garðastræti 23.

Í júni 2008 afsalaði Reykjavíkurborg Minjavernd hf. húseigninni Garðastræti 23, sem tók þar með að sér endurgerð hússins. Húsið var mælt og teiknað þá um haustið og í framhaldi af því fengið leyfi byggingarfulltrúans í Reykjavík til að fjarlægja skúrana sem byggðir höfðu verið við austur og norðurhlið hússins. Það var m.a. gert til að gera mætti könnunarskurði vegna fornleifarannsókna á lóðinni.

Fornleifastofnun Íslands tók þann verkþátt að sér fyrir borgarminjavörð og skilaði skýrslu um prufugröft með austur- og norðurmörkum lóðarinnar sem fram fór í janúar 2009. Í inngangi að skýrslunni er jafnfrframt yfirlit um ritaðar heimildir um Vaktarabæinn og bæinn Grjóta eftir Mjöll Snæsdóttur. Við prufugröftinn kom í ljós stétt eða hluti stéttar annars vegar og e-s konar kolagryfja hins vegar norðan við húsið.