Eins og glöggir lesendur sjá er ARGOS stytting fyrir Arkitektastofu Grétars og Stefáns, sem er heiti á vinnustofu arkitektanna Grétars Markússonar og Stefáns Arnar Stefánssonar. Samstarfið má rekja til ársins 1980 er þeir unnu báðir á Teiknistofu Stefáns Jónssonar en enn áður höfðu báðir unnið á Teiknistofunni Höfða í Reykjavík. Saman stofnuðu þeir svo Teiknistofuna Skólavörðustíg 28 sf. árið 1991 en flutningur stofunnar út í Örfirisey 2005 kallaði eiginlega á nafnbreytingu þó ekkert annað hafi svo sem breyst í starfi eða stefnu.

Nú erum við til húsa á Eyjarslóð 9, 2. hæð og unum okkur ágætlega innan um fjölbreytt lið fatahönnuða og fisksala, ljósmyndara og línuveiðara, seglagerða og sjóbúða.

PS. Argos er reyndar einnig nafnið á grískum hálfguði sem falið var að gæta Íó ástkonu Seifs. Til að ekkert færi framhjá honum var Argos alsettur augum um allan kroppinn. Einhver þeirra sofnuðu þó á verðinum og Hermes kom höggi á hann og drap hann. Augu Argosar má hins vegar enn sjá á stélfjöðrum páfuglsins.