AUSTURSTRÆTI 22, LANDSYFIRRÉTTARHÚSIÐ


Austurstræti 22 var byggt 1801 sem stokkahús úr innfluttum væntanlega norskum trjám, tilhöggnum. Svo til allt timbur til húsbygginga var flutt inn, mest frá Noregi. Húsið var byggt á grjóthlöðnum sökkli. Stokkarnir voru klæddir utan með reisifjöl, lóðréttri borðaklæðningu og þakið klætt tvöfaldri súð, skarsúð undir og rennisúð yst, sem var tjörguð. Hefðbundið íslenskt timburþak á 18. og 19. öld. Húsið var byggt við eina af fyrstu götum Reykjavíkur sem hafði þá fengið kaupstaðarréttindi fimmtán árum áður og íbúafjöldi bæjarins var þá um 300 manns. Í húsinu voru tvær stofur niðri, í eystri stofunni var reyndar líka lítið herbergi, þrjú kames og eldhús en á loftinu voru þrjú herbergi og eldhús. Að innan voru stofurnar þiljaðar og önnur þeirra veggfóðruð. Loftin voru þiljuð. Ofnar voru í stofunum niðri. Dyraumbúnaðurinn að götunni var nýklassískur með flatsúlum og seinna strikuðum bjór yfir. Gluggarnir voru með svokölluðum enskum gluggum, í hverjum glugga voru tveir rammar með tíu rúðum hvor. Húsið var eitt af fínni húsum bæjarins á þessum árum.

 

Ísland var á þessum árum amt í danska ríkinu og laut dönsku konungsvaldi og danskri einokun í verslun. Skömmu eftir byggingu hússins keypti hinn nýi stiftamtmaður Dana, Trampe greifi húsið, gerði á því miklar endurbætur og gerði að íbúðarhúsi sínu. Það var síðan íbúðarhús æðstu embættismanna Dana tvo áratugi eða þar til amtmaðurinn fluttist í steinhúsið sem verið hafði fangelsi áður handan torgsins. Þá var Landsyfirrétturinn fluttur í húsið en hann var stofnaður árið 1800 þegar konungur lagði Alþingi niður. Það var síðan endurreist 1843. Frá miðri öldinni var Prestaskólinn til húsa í Austurstræti 22 eða þar til Háskóli Íslands var stofnaður 1911. Eftir það var húsinu breytt í verslunarhús og var það lengst af 20. öldinni, síðustu árin fyrir brunann var rekinn þar skemmtistaður.

 

Eftir brunann 2007 var húsið tekið niður. Á efri hæð þess reyndust vera leifar af stokkum á horni og hluta af gafli. Nægilegar til að hægt var að átta sig á stærð hússins, gerð stokkanna og samsetningu þeirra. Ennfremur stóð eftir eldstæðið á jarðhæð hússins, endurbætt en að mestu í upphaflegri gerð. Og þegar grafið var í grunninn komu í ljós leifar af sökkulhleðslu hússins og skíðgarðsins eins og lýst hafði verið á gömlum uppdráttum. Við endurgerð hússins var farið eftir þessum stokkaleifum, efnið var höggvið til á sama hátt, samsetningar voru gerðar eins og húsamosi tíndur á heiðum og settur til þéttingar milli stokkanna, skarsúðin var sett upp að nýju handhefluð og verður sýnileg að innan. Eldstæðið var endurgert og þiljur og innri frágangur sem næst því sem lýst er í virðingargerðum frá byrjun 19. aldar. Grunnurinn var jafnframt lagður út fyrir hússins veggi eins og var.

 

Bygging hússins var í höndum Gunnars Bjarnasonar húsasmíðameistara. Undir hans stjórn og með öxum hans og hnífum og heflum voru stokkarnir hoggnir til, nöfin eða samsetningarnar á hornunum voru höggvin til og stokkarnir felldir saman, bitarnir felldir í veggina og tekið úr fyrir gluggum og hurðum og sperrurnar reistar. Þegar allt húsið var tilhoggið var það tekið niður aftur og flutt á byggingarstað í Austurstræti og reist þar á ný, klætt skarsúð og rennisúð og síðan klætt utan og innan. Að innan má sjá nokkra veggi úr tilhoggnum stokkum, skarsúðina á bitunum, handheflaða að innanverðu, brjóstþil og panela, spjaldahurðir og spjaldaloft, allt unnið af framúrskarandi iðnaðarmönnum hverjum á sínu sviði undir stjórna Gunnars.

 

Húsið tengist sjálfstæðisbáráttu Íslendinga og breytinga í þá sömu átt sem gerðu vart við sig í Evrópu á þessum tíma eftir frönsku byltinguna. Ísland var hluti danska ríkisins og danski konungurinn einokaði verslun við Ísland. Danir fylgdu á þessum tíma Napóleon í stríði hans við Englendinga. Enskur kaupmaður kom til Íslands 1809 til að kaupa tólg og selja varning sinn og hafði með sér danskan túlk og aðstoðarmann, Jörgen Jörgensen. Verslun við útlendinga, þ.e. aðra en Dani hefði haft í för með sér dauðarefsingu fyrir Íslendinga en Jörgen Jörgensen tók þá danska stiftamtmanninn fastan og lýsti yfir frelsi Íslendinga frá Dönum og heimilaði frjálsa verslun. Hann boðaði nýja tíð fyrir Íslendinga tók sér landstjóravald og settist að í húsi amtmannsins, Austurstræti 22. Flestir Íslendinga stóðu kyrrir hjá en nokkrir fylgdu honum og allir sem gátu versluðu við kaupmanninn. Frelsið stóð í um 100 daga og hefur Jörgen Jörgensen síðan verið nefndur hundadagakonungur á Íslandi. Hann var mikill ævintýramaður og sigldi víða um heimsins höf og endaði daga sína í Tasmaníu þar sem hann er grafinn..