TYNESARHÚSIÐ Á SIGLUFIRÐI
Húsið er talið byggt um 1906 fyrir Sigfús
Guðlaugsson við Aðalgötu á Siglufirði. Það var upphaflega einlyft, á
allháum kjallara, portbyggt með kvisti og inngangi á miðri götuhlið. Það
var klætt láréttum panel, vatnspanel að utan og vatnsbretti eða bekkur
allan hringinn ofan við glugga. Húsið var stækkað og því breytt nokkrum
sinnum. Um 1925 hefur neðri hæð hússins verið stækkuð til vesturs og
inngangur verið færður þangað og er frá Norðurgötu. Húsið var þá
járnklætt. Um tíu árum seinna hefur verið byggt ofan á viðbygginguna og
kvisturinn að götunni jafnframt stækkaður og þar eru tveir 3ja faga
gluggar.
Árin 1998-99 var húsið endurgert, klætt utan nýrri vatnsklæðningu sem
gerð var eftir gömlu klæðningunni. Nýir gluggar voru smíðaðir eftir þeim
sem fyrir voru og nokkrar breytingar gerðar á gluggasetningu til
samræmingar. Tröppur utanhúss voru endurgerðar og húsið fært aftur í
upphaflegan sveitser-búning sinn.