SÆBYHÚSIÐ Á SIGLUFIRÐI


Sæby-húsið er eitt af litlu húsunum sem í upphafi aldar voru fjölmörg á Siglufirði og öðrum þorpum og kauptúnum á Íslandi.

Sæby- húsið byggði Andreas Christian Sæby, danskur beykir, sem fluttist til Siglufjarðar um 1870. Hann mun hafa keypt torfbæ þann, sem hæst stóð á Eyrinni og byggt þar fyrsta hluta hússins upp úr 1870 og seinni hlutann, stofuna til norðurs, um 1887. Kvistirnir voru báðir gerðir 1895, að talið er. Árið 1915 gekk sonur beykisins í hjónaband og kom heim með konu sína og byggði fyrir þau sérkennilega stóran kvist  til austurs út af kvistinum sem fyrir var. Við endurgerð hússins var þessum sérkennum hússins haldið en jafnframt var það stækkað og byggt við það baka til. 

Í timans rás höfðu rammar verið teknir úr gluggum og þeim breytt, húsið hafði allt verið járnklætt, jarðvegur gengið upp á veggi og húsið var illa farið af fúa. Siglufjarðarbær friðlýsti húsið 1977 í A flokki.

Samráð  var haft við Húsafriðunarnefnd um viðgerðir og endurbætur m.a. fengið leyfi fyrir nýjum sökkli og hækkun hússins  og síðast kynnt breyting á gerð ytri klæðningar ,  þegar í ljós kom að um lóðrétta nótaða klæðningu hafði verið að ræða en ekki lárétta klæðningu, eins og áætlað hafði verið af einni skoðun.

Viðgerð á Sæbyhúsinu hófst í júní 1997. Húsið var þá dregið af grunni, steyptir sökklar og hlaðið í þá.  Húsið var tekið í notkun sem íbúðarhús 1998.