SKÓLAVÖRÐUSTÍGUR 13, REYKJAVÍK


Um aldamótin 1900 stóð steinbær, byggður um miðja 19. öld á allstórri lóð þar sem nú er húsið sem kennt hefur verið við SPRON á Skólavörðustíg 11. Þar bjó þá Þórunn Sveinsdóttir ljósmóðir, föðursystir Einars Benediktssonar skálds en bróðir hennar og faðir Einars mun hafa átt lóðina. Skömmu fyrir aldamótin byggði hún sér tvílyft timburhús við Skólavörðustíginn en hún lést 1903.

Lóðirnar Skólavörðustígur 13 og 13a urðu til í byrjun 20. aldar úr suðausturhluta lóðarinnar nr. 11 við Skólavörðustíg.  Á lóðunum voru byggð tvö sambyggð hús árið 1926, eiginlega parhús, tvílyft steinhús með háu risi, eftir teikningu Guðmundar H. Þorlákssonar. Húsin byggðu Magnús Sæmundsson og Jón Bjarnason. Í húsi Magnúsar var upphaflega sölubúð á neðri hæð, en í húsi Jóns voru teiknaðar skrifstofur á neðri hæð, sem sé verslun og þjónusta eins og það heitir í dag. Skrifstofunni var svo breytt 1952 í verslun, gluggarnir að götunni voru þá stækkaðir en milli húsanna var port þar sem farið var í gegn inn á baklóðina.

Árið 1954 voru byggðar tvær hæðir ofan á húsið nr. 13a, fyrir íbúð og vinnustofu, eftir uppdráttum sama Guðmundar H. Þorlákssonar og var þá samræmi húsanna fyrir bí sem áður hafði verið. Gluggum var breytt og á hinum nýju hæðum voru öðruvísi gluggar og stærri í samræmi við nýjan tíma fúnkissins. Þessu húsi var svo breytt í gistihús árið 1986 og starfrækt þannig í tæplega 20 ár.

1994 var byggt ofan á lægra húsið nr. 13 eða réttara reist portbyggð 3ja hæð með kvisti að götunni og nýju stigahúsi á baklóðinni, skv. teikningum ARGOS ehf.

Húsið var þá í eigu SPRON og tenging var gerð á 2. hæð milli aðalbyggingar sparisjóðsins og hins nýja stigahúss.

Frá árinu 2005 hafa bæði húsin verið í eigu sama aðila, sem með sameiningu lóðanna og þar með húsanna hyggst nota það fyrir sína starfsemi á 3 hæðum. Það fól m.a. í sér að færa efra húsið meira til samræmis við neðra húsið og til samræmis við uppruna sinn í gluggagerð og gluggasetningu.

Komið hefur verið til móts við athugasemdir sem fram komu við grenndarkynningu með því að lækka efra húsið og bakhúsið um eina hæð, sem telst nokkur nýlunda í byggingarmálum borgarinnar. Efra húsið var  lækkað um eina hæð og hæðir begjja húsa tengdar saman, byggt var nýtt stigahús baka til. Nýbyggingin veldur ekki sólarskugga nema á bílastæðin á baklóðinni yfir hádaginn og þegar líður á daginn taka aðrar byggingar við sem skuggavaldar á þessum slóðum.

Með hönnun byggingarinnar er fyrst og fremst leitað eftir hagræði fyrir þá starfsemi sem er í húsunum og vill geta vaxið þar og dafnað auk þess sem leitast er við að samræma útlit þessara tveggja húsa sem hafa fylgst að í gegnum 80 ár, í gegnum súrt og sætt. Og nú væntanlega frekar sætt en súrt.