SAMKOMUHÚS OG STÓRAPAKKHÚS Í FLATEY


Samkomuhúsið í Flatey var byggt um 1870 sem pakkhús en var síðar  nýtt sem m.a. loftskeytastöð. Þegar hún var lögð niður í Flatey og síminn tók við fékk Ungmennafélag Flateyjar húsið til umráða og hafði þar nokkuð öfluga félagsstarfsemi ásamt því að það var nýtt sem leikfimihús eyjarinnar.

Samkomuhúsið er einlyft á hlöðnum sökkli. Fótstykki úr 7”x 7” og gólfbitar 6”x 6”. Grind útveggja úr 5”x 5”,Húsið var og er með öðrum orðum frekar vel viðað og hluti gólfbita hússins mun vera úr mun eldri húsum.

Stórapakkhús var byggt 1918 á  sökkli sem var hlaðinn 1905. Þar var saltfiskverkun og pakkhúspláss verslunar í Flatey fram undir 1960. Í kjallara þess var um tíma ljósavél Kaupfélags Flateyjar.

Stórapakkhús er kjallari, hæð og ris. Fótstykki úr 8”x 8”, gólfbitar neðri hæðar 7”x 7”

en efri hæðar úr fjölbreyttari og minni stærðum. Grind útveggja er 5”x 5” og stærri, syllur 6”x 6” en sperrur efnislitlar, 4”x 4”. Klæðningar hússins utan eru bæði efnismiklar 1 ¼” x 6-8” svo og rýrara efni. Húsið var að stórum hluta til byggt upp úr efni úr Gamlhúsinu sem rifið var 1905.

Húsin eru nú bæði endurbyggð og hefur í öllum meginatriðum verið fylgt upphaflegri gerð þeirra og yfirbragði. Þau eru nýtt til gistingar og greiðasölu og er gert ráð fyrir mat- og samkomusal í Samkomuhúsi, en móttöku og herbergjum á efri hæðum Stórapakkhúss. Í kjallara Stórapakkhúss verður lítill bar, geymslur, snyrtingar, sturtur og sauna fyrir gesti ásamt tæknirými.

Við endurgerð húsanna var fylgt kröfum um eldvarnir og flóttaleiðir. Skilgreiningar á brunaþoli og flóttaleiðum voru unnar í samráði við Brunamálastofnun ríkisins.

Klæðningar á veggjum og loftum í stigahúsum, flóttaleiðum og sameiginlegum rýmum eru í flokki 1 nema samkomusalur sem er klæddur panel. Veggir milli herbergja og hæðaskil eru EI60 og hurðir fyrir herbergjum eru EICS30.

Í tengslum við húsin hér að ofan er svo Eyjólfspakkhús skammt frá, upphaflega byggt sem pakkhús 1905 en mælt og teiknað og síðar endurgert sem gistihús á vegum Minjaverndar hf. 2004.

Öll þessi verk voru unnin fyrir Minjavernd en ARGOS hefur komið að fleiri verkefnum í Flatey, mælt og teiknað og sagt fyrir um breytingar á Ásgarði (þar sem áður stóð Gamlhúsið), hannað skólahúsið gamla (reist 1920, rifið 1960) að nýju sem sumardvalarhús, teiknað dælustöð fyrir Vatnsveitu Flateyjar og vatnsgeymi, auk  þess gert uppdrætti að nokkrum fleiri húsum í eyjunni.