RÁÐAGERÐI Á SELTJARNARNESI


Yst á Seltjarnarnesi reistu Þórður Jónsson, hafnsögumaður og fyrri kona hans Þórunn Jónsdóttir sér hús um 1885 og nefndu Ráðagerði. Húsið er tvílyft timburhús á hlöðnum, múruðum kjallara. Gerð þess er m.a. sérstök fyrir það, að eiginleg grind er ekki í húsinu nema í vesturgafli. Það er byggt að öðru leyti af 2" þykkum, nótuðum, fjöðruðum plönkum, sem standa á syllu á kjallaraveggnum. Í vesturgafli var múrað í bindinginn á neðri hæðinni en steypt í binding á efri hæð. Húsið var endurgert árið 1998 hið ytra og er að hluta járnklætt en að hluta klætt láréttri vatnsklæðningu. Framkvæmdin var í höndum Gamlhúss ehf.