EININGAHÚS FYRIR TJALD- OG ÚTIVISTARSVÆÐI


Trésmiðja Kára Lárussonar ehf. í Saurbæjarhreppi í Dalasýslu framleiðir einingahús og ýmsan búnað úr timbri fyrir tjaldsvæði, íþróttasvæði og önnur útivistarsvæði. Upphaf framleiðslu þessara húsa má rekja til samkeppni sem Ferðamálaráð Íslands efndi til árið 1984 um búnað fyrir tjaldsvæði. Grétar Markússon og Stefán Örn Stefánsson arkitektar, Gunnar St. Ólafsson verkfræðingur og Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt unnu til 1. verðlauna í samkeppninni og þessi einingahús hafa síðan verið í framleiðslu fyrst í Búðardal og síðan í Saurbæjarhreppnum, fyrst undir nafni Burkna efh. og nú hjá Trésmiðju Kára Lárussonar ehf. Þau eru í notkun víða um land og hafa reynst vel.

 

Grunneining húsanna er ávallt sú sama, 2.4 x 2.4 m, þau eru byggð upp af burðarvirki úr tré, hornstoðum og bitum í gólfi og undir þaki. Þökin eru úr þykkum krossviði, klædd þykkum, svörtum asfaltpappa með sendinni áferð. Einingarnar eru festar við steyptar undirstöðueiningar, sem fylgja húseiningunum, en alls geta fjórar einingar komið saman á einni undirstöðu. Í algengustu gerðinni eru tveir salernisklefar með handlaugum í öðrum helmingi hússins en vaskbekkur í hinum. Skjólveggir ganga þá út frá hornum og eru notaðir til lokunar yfir vetrartímann. Mörg tilbrigði eru til við þessa gerð og eru nokkur þeirra sýnd hér á síðunni. Vert er að geta sérstaklega einingar, sem ætluð er fötluðu fólki, þar er heil eining notuð fyrir salerni, hjálparslár og vask en jafnframt komið fyrir borðplötu  með dýnu, sem nota má sem skiptiborð fyrir bleyjubörn. Stökum einingum má raða saman að vild en einnig er hægt að fella tvær eða þrjár einingar saman undir heilu þaki og eru nokkur dæmi um það sýnd hér til hliðar.


Bækling með teikningum af mismuandi útfærslum húsanna má finna hér.


Efnið er einnig aðgengilegt á heimasíðu Ferðamálastofu