ROALDS BRAKKI


Í kynningarblaði sem gefið var út í september 1991 af Félagi áhugamanna um minjasafn (FÁUM) á Siglufirði er síldarævintýrinu á Sigló lýst þannig í fáum orðum:

Árið 1903 komu Norðmenn til Siglufjarðar og hófu veiðar og vinnslu síldar. Fljótt tóku íslenskir athafnamenn við forystuhlutverki Norðmanna og hófu mikil umsvif á staðnum.

Til Siglufjarðar sótti fólk atvinnu sína í þúsunda eða tugþúsunda tali. Allt snerist í kringum síldina og mannlífið einkenndist af striti og lífsgleði í þessum frægasta síldarbæ í heimi.

Í sextíu ár var Siglufjörður miðstöð síldariðnaðarins og og þaðan streymdi auðurinn af 

afurðum síldarinnar og átti stóran þátt í umbyltingu þjóðfélagsins til framfara og velmegunar.

Félag áhugamanna um minjasafn var stofnað í ágúst 1989 og fáeinum vikum seinna var gengið frá samkomulagi milli þess og Siglufjarðarkaupstaðar um að félagið fengi til umráða húsið Roalds Brakka og þá muni sem safnað hafði verið á vegum félagsins. Roalds Brakki stóð þá óheppilega nálægt brekkunni og eiginlega undir mikilli vegfyllingu og fyrirhugað var að flytja húsið um set frá brekkunni, nær sjónum og búa það undir nýtt hlutverk sem safnahús en varðveita þó allt sem varðveita mátti af ummerkjum um fyrri tíð. Húsið var mælt og teiknað 1991 og var þá þegar hafist handa um flutninginn og húsinu lyft og fært á nýjan stað þar sem það laskaðist í miklu óveðri í ágúst 1991.

Það skemmdist þó ekki meira en svo að hægt var að flytja það í nýjan gamlan grunn Þróarinnar sem svo var kölluð vorið eftir og hófst þá endurbyggingin. Frá neðstu hæðinni gengur bryggjan fram, en á henni fer fram söltun á hverju sumri, á fyrstu hæð eru sýningar og afgreiðsla en efsta hæðin og þurrkloftið eru að mestu með sínum ummerkjum, eins og söltunarstúlkurnar séu hafi rétt farið á planið að salta.

Driffjöðrin í félaginu og öllum undirbúningi og uppsetningu sýningarinnar var og er að öðrum ólöstuðum Örlygur Kristfinnsson safnvörður. Smiðir voru Ágúst Stefánsson og HjálmarJóhannesson. Húsið var tekið í notkun 1996 og safnið og sýningarnar hafa hlotið fjölmörg verðlaun m.a Evrópsku safnverðlaunin 2004. Með okkur starfaði eins og svo oft áður Gunnar St. Ólafsson verkfræðingur að áætlanagerð og hönnun burðarvirkis.